Fundur haldinn í fjarfundi, 10. nóvember 2020 og hófst hann kl. 16:00
Nefndarmenn
- Ásgeir Sveinsson (ÁS) aðalmaður
- Iða Marsibil Jónsdóttir (IMJ) aðalmaður
- Þórkatla Soffía Ólafsdóttir (ÞSÓ) formaður
Starfsmenn
- Gerður Björk Sveinsdóttir (GBS) skrifstofustjóri
- Rebekka Hilmarsdóttir (RH) bæjarstjóri
Fundargerð ritaði
- Gerður Björk Sveinsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Almenn erindi
1. Hjúkrunarrými á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða Patreksfirði
Lagt fram bréf Vesturbyggðar dags. 15. júní 2020 um viðbótarrými vegna frumathugunar fyrir hjúkrunarrými. Bæjarstjóri fór yfir vinnu samstarfshóps um endurnýjun hjúkrunarrýma við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði og rætt var um þá valkosti sem til skoðunar eru. Þá var farið yfir þau viðbótarrými sem sveitarfélagið hefur óskað að verði skoðaðir í frumathuguninni, þ.e. rými fyrir félagsstarf aldraðra, dagvistun og þjónustuíbúðir.
Bæjarráð fagnar því að verkefninu miði vel áfram.
Málsnúmer 2004011 14
2. Upplýsingastefna Vesturbyggðar 2021
Lagt fram minnisblað bæjarstjóra dags. 5. nóvember 2020, þar sem lagt er til að hafinn verði undirbúningur við vinnslu upplýsingastefnu fyrir Vesturbyggð á árinu 2021 með það að markmiði að tryggja gagnsæi í stjórnsýslu sveitarfélagsins, þannig að allir sem hagsmuna eiga að gæta hafi greiðan aðgang að upplýsingum um starfsemi Vesturbyggðar. Samhliða því verði settar verklagsreglur og leiðbeiningar um birtingu gagna sem og notkun samfélagsmiðla. Þá er lagt til að aukin verði notkun samfélagsmiðla og myllumerkja til að koma upplýsingum betur á framfæri við íbúa sem og kynna betur daglega starfsemi sveitarfélagsins.
Bæjarráð samþykkir að farið verði af stað með vinnu við upplýsinastefnu fyrir Vesturbyggð.
Málsnúmer 2011014 8
3. Stytting vinnuvikunnar
Lagðar fram leiðbeiningar innleiðingarhóps Sambands íslenskra sveitarfélaga um betri vinnutíma og styttingu vinnuvikunnar samkvæmt kjarasamningnum. Bæjarstjóri og sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs fóru yfir undirbúning vegna styttingar vinnuvikunnar sem tekur gildi 1. janúar 2021 fyrir dagvinnufólk og þá vinnu sem vinnutímahópar stofnana Vesturbyggðar hafa unnið að síðustu vikur.
Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að bæjarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs verði veitt umboð til að yfirfara tillögur frá starfsstöðvum sveitarfélagsins vegna styttingar vinnuvikunnar og staðfesta að þær séu innan ramma kjarasamninga og tilkynna innleiðingahóp Sambands íslenskra sveitarfélaga um niðurstöðurnar.
Málsnúmer 2008037 2
4. Ósk um umsagnarbeiðni vegna breytingar á starfsleyfi Arnarlax í Patreksfirði og Tálknafirði
Lagt fram bréf Skipulagsstofnunar dags. 30. október 2020 þar sem óskað er umsagnar Vesturbyggðar, hvort og á hvaða forsendum breyting á skilyrðum í starfsleyfi Arnarlax í Patreksfirði og Tálknafirði, skuli háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Breyting á starfsleyfi felur í sér að heimilt verði að notast við eldisnætur með ásætuvörn sem inniheldur koparoxíð. Vesturbyggð fékk frest til 18. nóvember nk. til að skila umsögn um málið.
Bæjarstjóra falið að skila umsögn um breytinguna í samræmi við umræður á fundinum og með hliðsjón af umsögn sveitarfélagsins til umhverfisstofnunar dags. 17. júlí 2020 vegna sambærilegrar breytingar á starfsleyfi Arctic Sea Farm hf. og að undangenginni umfjöllun í hafna- og atvinnumálaráði.
Málsnúmer 2011002 2
5. Strandverðir Íslands
Lagður fram tölvupóstur frá Þórarni Tota Ívarssyni fyrir hönd Veraldarvina, dags. 3. nóvember 2020 vegna verkefnisins Strandverðir Íslands. Verkefnið felur í sér hreinsun á öllum ströndum Íslands með íslenskum og erlendum sjálfboðaliðum og mynda um leið hópa af strandvörðum um allt land sem hafa það hlutverk að viðhalda ströndum landsins þegar búið er að hreinsa þær. Í erindu er íbúum í Vesturbyggð boðið að taka þátt í þessu verkefni næstu árin. Í erindinu er óskað eftir samstarfi við sveitarfélög, um aðgang að sundlaug, söfnun og tjaldstæðum fyrir þá sjálfboðaliða sem vinna í verkefninu sem og aðstoða við kynningu verkefnisins meðal íbúa.
Bæjarráð tekur vel í erindið og felur bæjarstjóra að svara bréfritara.
Málsnúmer 2011008
6. Samstarfshópur um friðlýsingar á svæði Dynjanda
Bæjarstjóri fór yfir vinnu samstarfshóps sem falið var af Umhverfis- og auðlindaráðherra að kanna og undirbúa mögulega stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum. Áformin hafa verið kynnt skv. 47. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 á heimasíðu Umhverfisstofnunar, þar sem unnt er að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum um áformin.
Bæjarráð fagnar áformunum og þeim tækifærum sem fyrirhuguð stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum mun hafa í för með sér.
Málsnúmer 2001009 7
7. Veðyfirlýsing vegna lána hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf.
Farið var yfir ábendingar Lánasjóðs íslenskra sveitarfélaga vegna bókana bæjarstjórnar Vesturbyggðar vegna lántöku hjá sjóðnum fyrir árin 2016, 2019 og 2020, en láðst hafði í bókunum að tilgreina samþykki fyrir veitingu veðs í tekjum sveitarfélagsins.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn Vesturbyggðar að samþykkt verði í samræmi við reglugerð um tryggingu Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. í tekjum sveitarfélags nr. 835/2012, að veitt verði veð í tekjum Vesturbyggðar til lána hjá Lánasjóði sveitarfélaga umrædd ár.
Málsnúmer 2011012 2
8. Minnisblað vegna siglingaverndar og stjórnendavaktar
Lagt fram að nýju minnisblað Slökkviliðsstjóra Vesturbyggðar dags. 25. september 2020. Í minnisblaðinu er velt upp möguleikanum á sameiningu bakvaktar siglingaverndar og stjórnendavaktar slökkviliðsins. Hafna- og atvinnumálaráð fjallaði um minnisblaðið á 24. fundi ráðsins og vísaði því aftur til bæjarráðs.
Afgreiðslu tillögunnar er frestað þar til niðurstöður fýsileikakönnunar á sameiningu slökkviliðs og sjúkraflutninga liggur fyrir.
Málsnúmer 2009086 3
9. Fundargerð nr. 890 stjórnar SÍS
Lögð fram til kynningar fundargerð 890. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna fundar 30. október 2020
Málsnúmer 2011005
Til kynningar
10. 1704198 - Drög að reglum um eyðingu námsmatsgagna
Lagður fram til kynningar tölvupóstur Þjóðskjalasafns Íslands, dags. 3. nóvember 2020, þar sem auglýst er til umsagnar drög að reglum um eyðingu námsmatsgagna afhendingarskyldra aðila.
Málsnúmer 2011007
11. Yfirlýsing smærri fyrirtækja, einyrkja og sjálfstætt starfandi aðila í ferðaþjónustu
Lagður fram til kynningar tölvupóstur Jónu Fanneyjar Svavarsdóttur dags. 3. nóvember 2020, um yfirlýsingu baráttuhóps smærri fyrirtækja, einyrkja og sjálfstætt starfandi aðila í ferðaþjónustu.
Málsnúmer 2011006 2
12. Minningardagur um fórnarlömb umferðaslysa 2020
Lagt fram til kynningar bréf samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins dags. 26. október 2020, um árlegan minningardag um fórnarlömb umferðaslysa sem haldinn verður hátíðlegur sunnudaginn 15. nóvember nk.
Málsnúmer 2011016
13. Mál nr. 39 um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Ósk um umsögn
Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá nefndarsviði Alþingis dags. 5. nóvember 2020, þar sem óskað er umsagnar um tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar, 39. mál.
Málsnúmer 2011015
14. Dagur íslenskrar tungu 16.11.2020
Lagt fram til kynningar bréf mennta- og menningarmálaráðherra og forstöðumanns Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, dags. 28. október 2020 um dag íslenskrar tungu sem haldinn verður hátíðlegur mánudaginn 16. nóvember nk.
Málsnúmer 2011004
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:00