Hoppa yfir valmynd

Samstarfshópur um friðlýsingar á svæði Dynjanda

Málsnúmer 2001009

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

10. nóvember 2020 – Bæjarráð

Bæjarstjóri fór yfir vinnu samstarfshóps sem falið var af Umhverfis- og auðlindaráðherra að kanna og undirbúa mögulega stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum. Áformin hafa verið kynnt skv. 47. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 á heimasíðu Umhverfisstofnunar, þar sem unnt er að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum um áformin.

Bæjarráð fagnar áformunum og þeim tækifærum sem fyrirhuguð stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum mun hafa í för með sér.




17. febrúar 2021 – Bæjarstjórn

Lögð fram drög að friðlýsingarskilmálum fyrir þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum. Bæjarstjóri fór yfir vinnu starfshópsins sem unnið hefur að málinu. Um er að ræða fyrsta þjóðgarðinn á Vestfjörðum og innan marka hans er friðlandið í Vatnsfirði og tvö náttúruvætti, Dynjandi og Surtrabrandsgil sem áður hafa verið friðlýst. Það land sem verður innan marka þjóðgarðsins er allt í eigu ríkisins. Markmið friðlýsingarinnar skv. skilmálunum er að vernda og varðveita þetta einstaka svæði til framtíðar. Í skilmálunum er þó sérstaklega tekið tillit til núverandi nýtingar innan svæðisins sem og nauðsynlegrar innviðauppbyggingar m.a. veglagning um Dynjandisheiði.

Til máls tóku: Forseti og bæjarstjóri.

Bæjarstjórn fagnar áformunum og tekur undir bókun bæjarráðs að mörg tækifæri séu fólgin í stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum. Þá beri drög að friðlýsingaskilmálum þess merki að tekið hafi verið tillit til athugasemda og ábendinga íbúa og hagsmunaaðila þegar áform um stofnun þjóðgarðsins voru kynnt.

Við áframhaldandi undirbúning fyrir stofnun þjóðgarðsins leggur bæjarstjórn áherslu á að gætt verði að nauðsynlegri innviðauppbyggingu innan marka þjóðgarðsins. Þá verði ekki settar íþyngjandi takmarkanir við framtíðarorkuöflun innan marka þjóðgarðsins, viðhald og endurnýjun raflína og orkumannvirkja verði ekki takmörkuð sem og uppbygging samgöngumannvirkja, m.a. á Dynjandisheiði.

Bæjarstjórn hvetur íbúa og hagsmunaaðila til að skila sínum ábendingum og athugasemdum til umhverfisstofnunar þegar friðlýsingarskilmálarnir verða auglýstir.




20. maí 2021 – Bæjarráð

Lagt fram til kynningar bréf Orkubús Vestfjarða dags. 11. maí 2021 vegna friðlýsingu þjóðsgarðs á Vestfjörðum ásamt umsögn Orkubús Vestfjarða dags. 31. desember 2020 um áform um friðlýsingu á sunnanverðum Vestfjörðum.




8. júní 2021 – Bæjarráð

Lögð fram drög að viljayfirlýsingu umhverfis- og auðlindaráðherra, Vesturbyggðar og Ísafjarðabæjar um málefni þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum og þróun þjóðgarðsins til framtíðar.

Bæjarráð samþykkir viljayfirlýsinguna sem liggur fyrir og felur bæjarstjóra að vinna málið áfram og leggja fyrir bæjarstjórn til samþykktar.




16. júní 2021 – Bæjarstjórn

Lögð fram drög að viljayfirlýsingu um þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum. Bæjarráð samþykkti drögin fyrir sitt leyti á 922. fundi 8. júní sl. og fólu bæjarstjóra að vinna að málinu áfram og drög yfirlýsingar yrðu lögð fyrir bæjarstjórn til staðfestingar. Drög viljayfirlýsingarinnar tóku breytingum eftir fund bæjarráðs og er í fyrirliggjandi drögum m.a. mælt fyrir um að brýnt sé að styrkja afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum og horft verði til leiða sem samrýmast umhverfissjónarmiðum.

Til máls tók: Forseti.

Bæjarstjórn ítrekar fyrri bókun sína á 357. fundi 17. febrúar 2021, þess efnis að áform um þjóðgarð komi ekki veg fyrir nauðsynlega innviðauppbyggingu innan marka þjóðgarðsins.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar bendir á að stofnun þjóðgarðs mun ekki hafa í för með sér breytingar á mögulegum virkjunarkostum innan marka friðlandsins í Vatnsfirði sem friðlýst var árið 1975. Með setningu laga um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011 var fyrir það skotið að virkjunarkostir sem hafa uppsett rafafl 10MW eða meira yrðu heimilir innan marka friðlandsins í Vatnsfirði, nema til komi endurskoðun rammaáætlunar. Mikilvægt er því að mati bæjarstjórnar Vesturbyggðar að áherslur á aukið raforkuöryggi og orkukosti á Vestfjörðum verði aðskilin frá undirbúningi um stofnun þjóðgarðsins, enda þótt ekki verði af stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum þá koma friðlýsingarskilmálar friðlandsins í Vatnsfirði og ákvæði laga um verndar- og nýtingaráætlun í veg fyrir stærri virkjunarframkvæmdir innan núverandi marka friðlandsins í Vatnsfirði. Bæjarstjórn Vesturbyggðar telur hins vegar mikilvægt að áfram verði unnið að því að tryggja raforkuöryggi á Vestfjörðum og að leitað verði leiða til að tryggja að næg raforka verði til staðar á Vestfjörðum til að m.a. mæta aukinni atvinnuuppbyggingu og til að tryggja að orkuskipti.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar leggur til að bætt verði í viljayfirlýsinguna tilvísun í forgreiningu Vestfjarðastofu á innviðaþörf í þjóðgarði á sunnanverðum Vestfjörðum. Með þeim breytingum staðfestir bæjarstjórn samhljóða viljayfirlýsinguna og felur bæjarstjóra að undirrita hana fyrir hönd sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða.




22. júní 2021 – Bæjarráð

Lögð fram skýrsla starfshóps um Dynjandisþjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum ásamt drögum að viljayfirlýsingu um þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum dags. 22.06.2021. Einnig lagt fram minnisblað frá Orkubúi Vestfjarða dags. 9. júní 2021.

Bæjaráð staðfestir viljayfirlýsinguna.




6. júlí 2021 – Bæjarráð

Lögð fyrir til kynningar lokaskýrsla um Dynjandisþjóðgarð ódags. í júní 2021 ásamt skilabréfi dags. 21. júní 2021.