Hoppa yfir valmynd

Skipulags- og byggingarnefnd #175

Fundur haldinn í Aðalstræti 63, Patreksfirði, 18. febrúar 2013 og hófst hann kl. 08:30

    Fundargerð ritaði
    • Ármann Halldórsson Byggingarfulltrúi

    Skipulags -og byggingarnefnd býður Elfar Stein aðstoðarmann byggingarfulltrúa velkominn til starfa.

    Almenn erindi

    1. Deiliskipulag á Látrabjargi.

    Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkt á fundi þann 10. Desember 2012 að auglýsa skipulagsverkefni fyrir deiliskipulag Látrabjargs. Fyrirhugað deiliskipulagssvæði nær yfir land þriggja jarða, Hvallátra, Breiðavíkur og Keflavíkur. Stærð svæðisins er í allt um 9.000 ha.
    Skipulagslýsingin lá frammi á skrifstofu Vesturbyggðar Aðalstræti 75, Patreksfirði og á heimasíðu sveitarfélagsins www.vesturbyggd.is á meðan unnið er að skipulaginu. Frestur til að skila inn athugasemdum var til 13. janúar 2013. Umsagnir og athugasemdir bárust frá Veðurstofu Íslands Minjastofnun Íslands, Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða, Umhverfisstofnun, Maríasi Sveinssyni landeiganda, Þorvaldi Búasyni landeiganda og Gísla Má Gíslasyni landeiganda. Umsagir og athugasemdir voru teknar fyrir og ræddar. Tekið verður tillit til athugasemda og umsagna við deiliskipulagsvinnuna. Hákon Ásgeirsson starfsmaður Umhverfisstofnunar kom inn á fundinn undir þessum lið og kynnti skipulagsvinnuna.

      Málsnúmer 1203029 9

      Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


      2. Umsókn um byggingarleyfi fyrir niðurrifi á skemmu Aðalstræti 98

      Umsókn frá Aðalstræti 100 ehf. kt. 660711-0580 um niðurrif á skemmu að Aðalstræti 98 á Patreksfirði. Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir erindið fyrir sitt leyti.

        Málsnúmer 1301030

        Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


        3. Umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir snjóflóðavörnum á Patreksfirði

        Með vísan til 13. gr. laga nr. 123/2010, sækir Vesturbyggð um framkvæmdaleyfi til gerðar þvergarðs til varnar ofanflóðum og grjóthruni ofan byggðar á svæði milli Vatnseyrar og Geirseyrargils á Patreksfirði. Í samræmi við ákvæði reglugerðar um hættumat vegna ofanflóða, flokkun og nýtingu hættusvæða og gerð bráðabirgðahættumats. Skipulags -og byggingarnefnd bindur veitingu Framkvæmdaleyfisins skilyrðum, sem snúa að framkvæmd, tilhögun framkvæmda, mótvægisaðgerðum og vöktun. Nefndin leggur áherslu á að rask á umhverfi og starfsemi í kring verði sem minnst á byggingartímanum og tekið verði tillit til athugasemda sem fram komu frá íbúum á fundi með Ofanflóðasjóði þann 10 maí 2012. Skipulags -og byggingarnefnd Vesturbyggðar óskar eftir að gerð verði úttekt af óháðum aðila á ástandi mannvirkja í kring áður en garðurinn verði byggður og aftur að framkvæmdum loknum. Skilmálar með framkvæmdaleyfi í tengslum við skipulagsáætlanir Vesturbyggðar eru: Þar sem hluti núverandi skógræktar á svæðinu verður fjarlægð vegna framkvæmdar þá skal planta einu tré annars staðar innan svæðisins fyrir hvert tré sem fellt verður. Áður en framkvæmdaleyfi verður veitt skal hæðarmæla botnplötur allra húsa sem standa næst varnargarðinum og hallamálsmæla útveggi húsa. Við lokaúttekt verksins skal framkvæma samskonar mælingar. Í allt að sex ár eftir lokaúttekt mun Vesturbyggð framkvæma mælingar annað hvert ár. Jafnframt skulu framkvæmdar til samanburðar, mælingar á nokkrum húsum, sem einnig standa í brekkunni, en verða ekki fyrir áhrifum vegna framkvæmdanna. Einnig mælir nefndin með eftirfarandi skilmálum um sérstakt verklag í framkvæmdaleyfið: Að framkvæmdatími ofan grunnskóla verði aðallega yfir sumarmánuðina þegar starfsemi grunnskóla liggur niðri og lengja hann umfram sumarið í samráði við skólastjórnendur og bæjaryfirvöld, eins og nauðsyn krefur. Lögð verður áhersla á að verktaki gæti þess vel að raska hvergi landi utan framkvæmdasvæðisins, auk svæðis fyrir vinnubúðir. Öll umferð vegavinnutækja verður bönnuð utan framkvæmdasvæðisins. Öll tilhögun við efnistöku og vinnslu verður í samráði við landeigendur og Umhverfisstofnun. Frágangur á efnistökusvæðum verður samkvæmt verklagsreglum í ritinu Námur, Efnistaka og frágangur. Framkvæmdaraðilar áforma að hanna svæðið í fullu samráði við Minjastofnun Íslands. Framkvæmdirnar munu hinsvegar skemma þrjár minjar sem staðsettar eru fyrir ofan Heilbrigðisstofnunina á Patreksfirði. Tvær rústir og einn garður .[18.17,19]. Nokkuð af svæðinu er hulið þykkum og torfærum skógi og hugsanlega gætu minjar leynst þar, einnig skal bent á að minjar eru oft ekki sýnilegar á yfirborði, ef minjar koma fram við framkvæmdir skal umsvifalaust stöðva framkvæmdir og hafa samband við Minjastofnun Íslands. Einnig áréttar Skipulags- og byggingarnefnd að vatnsmagn í Mikladalsá, Litla - dalsá, Stekkagili og hlíð verði ekki vanmetið og tryggt verði að ræsing vatns sé örugglega næg. Að öðru leyti samþykkir nefndin veitingu framkvæmdaleyfisins.

          Málsnúmer 1205099 3

          Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


          4. Athugasemd við ofanflóðavarnir

          Teknar fyrir athugsemdir frá Jónasi Þór íbúa við Urðargötu 6 á Patreksfirði. Í athugasemdum Jónasar mótmælir hann því að vera ekki nafngreindur í bókun skipulags- og byggingarnefndar þann 14. janúar 2013. Í bréfi Jónasar Þór fer hann fram á að fyrirhugaðar framkvæmdir við ofanflóðavarnirnar ofan Klifs fari í umhverfismat. Einnig lýsir Jónas Þór áhyggjum sínum af lagningu vegslóða inni á framkvæmdasvæðinu, röskun fornminja, hæð fyrirhugaðra garða og tilgangi þeirra. Skipulags- og byggingarnefnd biður Jónas Þór afsökunar á því að nafngreina hann ekki í bókun þann 14. Janúar sl. og leiðréttist það hér með. Skipulags- og byggingarnefnd áréttar svör nefndarinnar sem byggingarfulltrúi sendi Jónasi Þór 22. Janúar 2013 sem er í 6.liðum og eru eftirfarandi:

          1. Hönnun varnargarðs og áhrif á jarðminjar: Hönnun varnargarðs byggir á þeim forsendum sem fram koma í Frumathugun á snjóflóðavörnum við Klif á Patreksfirði. Sú athugun byggir á forathugun frá árinu 2003. Í samræmi við hana var lagt til að byggður verði 250 metra langur og 10 - 12 metra hár þvergarður ofan grunnskóla, kyndistöðvar og sjúkrahúss. Byggingarnar standa allar innan hættusvæðis C á austanverðu svæðinu við Klif. Ennfremur er lagt til að settar verði upp snjósöfnunargrindur á fjallinu ofan upptakasvæða snjóflóða til þess að draga úr hættu á snjósöfnun í hlíðina og auka þannig öryggi garðsins gagnvart snjóflóðum. Áhrif á jarðminjar eru taldar vera óverulegar þar sem ekki eru jarðmyndanir á svæðinu sem njóta einhverjar verndar.
          2. Áhrif á skógrækt. Það er rétt að hluti skógræktar fer undir varnarmannvirki. Hluti mótvægisaðgerða verður að planta eins miklu og tapast við framkvæmdina og er það á ábyrgð sveitarfélagsins að því verði framfylgt. Aðgengi að skógræktarsvæðinu ætti því mögulega að aukast með aukinni stígagerð um svæðið sem og ætti að nýtast betur í skólastarfi t.a.m. með aukinni aðstöðu við útikennslu.
          3. Áhrif á fuglalíf. Gerð var athugun á fuglalífi vegna fyrirspurnar á matsskyldu og samkvæmt henni voru áhrifin talin vera óveruleg þar sem ekki hafa fundist fuglar á svæðinu sem eru á válista og varptegundir algengar á svæðisvísu. Í greinargerð sem fylgdi deiliskipulaginu kemur fram að áhrif á gróður og dýralíf eru talin vera óveruleg eða neikvæð. Mikilvægt er að vanda mjög til verka við frágang varnar-virkjanna. Taka þarf mið af aðliggjandi gróðurfari þannig að mannvirkið falli sem best að landslaginu
          4. Áhrif á fornleifar. Í greinargerð með deiliskipulaginu í kafla 1.9 kemur fram um hvers konar minjar eru að ræða. Unnin var úttekt á fornminjum á svæðinu og liggur fyrir skýrsla þess efnis. Innan deiliskipulagsmarka voru skráðar 18 minjar. Tvær minjar eru í beinni hættu vegna framkvæmdarinnar og fara undir garðinn. Aðrar minjar eru við stíg sem liggja mun að garðinum. Lokaútfærsla stígs og hönnun mun verða gerð í fullu samráði við Minjastofnun Íslands og þess gætt að minjum verði raskað sem allra minnst.
          5. Framkvæmdin sem slík var tilkynnt til Skipulagsstofnunar. Þann 11. ágúst 2011 tilkynnti Verkís hf., f.h. Vesturbyggðar, gerð snjóflóðavarna við Klif á Patreksfirði, til Skipulagsstofnunar samkvæmt 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.b. og lið 11 k í 2. viðauka laganna. Ákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir þann 4. október 2011 þar sem fram kom að framkvæmdin skyldi ekki vera háð mati á umhverfisáhrifum.
          6. Veglagning. Um er að ræða 3 m breiðan vegslóða sem fer um að mestu raskað land. Slóða verður síðan gengið frá í lok framkvæmdar þannig að hann nýtist sem útivistarstígur.
          Þveranir á vatnsfarvegum má auðveldlega fjarlægja ef vilji er fyrir því að framkvæmdum loknum. Með þessu fyrirkomulagi er komið í veg fyrir umrædda umferð í gegnum bæinn en við undirbúning framkvæmdar voru skoðaðir aðrir kostir varðandi aðkomu að svæðinu sem reyndust ekki raunhæfir. Annars vegar aðkoma að vestanverðu og sem þótti ekki æskilegur kostur þar sem allri þungaumferð er beint þá í gegnum bæinn. Hinn kosturinn var að vera með veg austan við Sjúkrahúsið sem reyndist of brött leið en einnig fylgdi umferð í gegnum bæinn. Núverandi kostur þykir því álitlegasti kosturinn m.t.t. þeirra áhrifa sem slík framkvæmd kann að hafa í för með sér. Við útfærslu vegarins verður tekið tillit til athugasemda Umhverfisstofnunar sem benti á að fella fláa og skeringar þannig að landi að slóðinn verði minna sýnilegur og að uppgræðsla verði í samræmi við það gróðurfar sem er þegar á svæðinu.
          Skipulags- og byggingarnefnd mun árétta það við hönnuði verksins að ræsismál verði endurskoðuð og því fylgt eftir við verktaka

            Málsnúmer 1302048

            Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


            5. Deiliskipulag Patrekshöfn

            Athugasemdir Skipulagsstofnunar frá 10.1.2013 og Olíudreifingu í tölvupóstum frá 28.1.2013 voru teknar fyrir. Uppdráttum og greinargerð var breytt í samræmi við athugasemdir. Byggingarfulltrúa falið að ganga frá tillögunni til afgreiðslu skv. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

              Málsnúmer 1201032 5

              Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


              6. Breyting á aðalskipulagi Vesturbyggðar Krossholt/langholt

              Lögð fram að nýju aðalskipulagsbreyting Krossholt/Langholt á Barðaströnd. Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti á fundi sínum þann 19. September 2012 að auglýsa tillögu að breytingu á aðalskipulagi fyrir Vesturbyggð.
              Samkvæmt 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og var auglýst eftir athugasemdum við tillögu að breytingu á aðalskipulagi vegna Krossholt/Langholt Barðaströnd. Skipulagsuppdrættir og greinargerð lágu frammi á skrifstofu Vesturbyggðar Aðalstræti 75, Patreksfirði og hjá Skipulagsstofnun Laugavegi 166, Reykjavík frá 21. Nóvember 2012 til 9. janúar 2013. Ennfremur voru gögnin aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins www.vesturbyggd.is. Frestur til að skila inn athugasemdum var til 9. Janúar 2013. Með bréfi, dags. 8. janúar 2013, gerði Ólafur H. Magnússon, fyrirsvarsmaður jarðarinnar Kross í Vesturbyggð, athugasemdir við fyrirliggjandi tillögu að breytingu á aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018. Athugasemdir Ólafs eru í fimm töluliðum og er umsögn um athugasemdirnar merktar með sama hætti. Einnig lögð fram umsögn Björns Jóhannessonar hrl. f.h. Vesturbyggðar um athugsemdir Ólafs.

              1. Athugasemdir um að óheimilt sé að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefur verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega framkvæmd hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.

              Í 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur m.a. fram að ef byggingarframkvæmd brýtur í bága við skipulag þá geti byggingarfulltrúi krafist þess að mannvirkið verði fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slík verk á hans kostnað. Samsvarandi ákvæði er einnig að finna í 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem fram kemur að sé framkvæmt í andstöðu við gildandi skipulag getur skipulagsfulltrúi krafist þess að hin ólöglega framkvæmd sé fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Mikilvægt er að hafa í huga að hér er um heimildarákvæði að ræða en ekki skylduákvæði eins og var í eldri skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.

              2.. Athugasemdir sem lúta að skilgreiningu svæðis með landbúnaðarsvæðis.

              Tekið skal fram vegna þessarar athugasemdar að breyting var gerð á aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018 í október 2011, sbr. auglýsingu Skipulagsstofnar, dags. 21. október 2011. Í breytingunni fólst að iðnaðarsvæði I2 varð að athafnasvæði A1 og verslunar- og þjónustusvæði V9. Einnig var gerð leiðrétting á kafla 2.3.5 í greinargerð aðalskipulags vegna tveggja lóða sem voru á iðnaðarsvæðinu I2. Þær voru 1 ha og 2 ha en urðu 1000 m2 og 2000 m2 með breytingunni.

              3. Skilyrði þess efnis að ekki verði notaður tilbúinn áburður til uppgræðslu á því svæði sem fyrirhugað er undir golfvöll.

              Ljóst er að rækta þarf upp stóran hluta þess svæðis sem fyrirhugað er undir golfvöll. Landið liggur m.a. austan árinnar Móru og því þótti eðlilegt að gera áskilnað um það að ekki yrði notaður tilbúinn áburður til uppgræðslu, til að fyrirbyggja hættuna af því fyrir lífríki árinnar raskist með því að óæskileg efni berist í ánna. Ekki liggur fyrir hvort né að hve miklu leyti tilbúinn áburður hefur hingað til verið notaður á þessu svæði en rétt þykir að gæta fyllstu varúðar í þessum efnum. Í umsögn Fiskistofu um breytingu á aðalskipulaginu er lögð rík áhersla á það að tryggt verði að skolp eða yfirborðsmengun berist ekki inn á vatnsvæði Móru og Hagavaðals og að framkvæmdir á svæðinu ógni ekki lífi ferskvatnsfiska á svæðinu

              4. Ósamræmi milli tillagna að breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi varðandi fjölda frístundalóða.

              Rétt er að ósamræmi er varðandi fjölda frístundalóða á svæðinu vestan Móru annars vegar í tillögu að breytingu á aðalskipulagi og hins vegar í fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu. Tillögunni verður breytt.

              5. Athugasemdir varðandi forsendur og markmið breytinga á aðalskipulagi.

              Forsendur breytinga á aðalskipulaginu eru fyrst og fremst að skilgreina núverandi landnotkun á svæðinu og jafnframt að koma til móts við eftirspurn aðila á svæðinu sem vilja styrkja byggðina og þá þjónustu sem er fyrir á svæðinu og auka atvinnumöguleika á svæðinu.

              Með vísan til fyrirliggjandi umsagnar Björns Jóhannessonar hrl. er lagt til við bæjarstjórn að aðalskipulagstillagan verði samþykkt
              Að öðru leyti vísar nefndin til stuðnings umsagnar Björns Jóhannessonar hrl. og gerir umsögn hans að sinni. Skipulags -og byggingarnefnd samþykkir tillöguna og felur byggingarfulltrúa að ganga frá tillögunni til afgreiðslu skv. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010

                Málsnúmer 1203094 7

                Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


                7. Deiliskipulag Krossholt Langholt

                Lögð fram að nýju deiliskipulag Krossholt/Langholt á Barðaströnd. Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti á fundi sínum þann 19. September 2012 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Krossholt/Langholt fyrir Vesturbyggð.
                Samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 var auglýst eftir athugasemdum við tillögu að deiliskipulag vegna Krossholt/Langholt Barðaströnd. Skipulagsuppdrættir og greinargerð lágu frammi á skrifstofu Vesturbyggðar Aðalstræti 75, Patreksfirði og hjá Skipulagsstofnun Laugavegi 166, Reykjavík frá 21. Nóvember 2012 til 9. janúar 2013. Ennfremur voru gögnin aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins www.vesturbyggd.is. Frestur til að skila inn athugasemdum var til 9. Janúar 2013. Með bréfi, dags. 8. janúar 2013, gerði Ólafur H. Magnússon, fyrirsvarsmaður jarðarinnar Kross í Vesturbyggð, athugasemdir við fyrirliggjandi tillögu að umræddu deiliskipulagi. Athugasemdir Ólafs eru í tíu töluliðum og er umsögn um athugasemdirnar merktar með sama hætti. Einnig lögð fram umsögn Björns Jóhannessonar hrl. f.h. Vesturbyggðar um athugsemdir Ólafs

                1. Athugasemdir um að óheimilt sé að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefur verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega framkvæmd hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.

                Í 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur m.a. fram að ef byggingarframkvæmd brýtur í bága við skipulag þá geti byggingarfulltrúi krafist þess að mannvirkið verði fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slík verk á hans kostnað. Samsvarandi ákvæði er einnig að finna í 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem fram kemur að sé framkvæmt í andstöðu við gildandi skipulag getur skipulagsfulltrúi krafist þess að hin ólöglega framkvæmd sé fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Mikilvægt er að hafa í huga að hér er um heimildarákvæði að ræða en ekki skylduákvæði eins og var í eldri skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997

                2. Athugasemdir sem lúta að skilgreiningu svæðis sem landbúnaðarsvæði.

                Tekið skal fram vegna þessarar athugasemdar að breyting var gerð á aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018 í október 2011, sbr. auglýsing Skipulagsstofnar, dags. 21. október 2011. Í breytingunni fólst að iðnaðarsvæði I2 varð að athafnasvæði A1 og verslunar- og þjónustusvæði V9. Einnig var gerð leiðrétting á kafla 2.3.5 í greinargerð aðalskipulags vegna tveggja lóða sem voru á iðnaðarsvæðinu I2. Þær voru 1 ha og 2 ha en urðu 1000 m2 og 2000 m2 með breytingunni.

                3. Mótmæli varðandi notkun á heitu vatni til bygginga á nýju byggingarsvæði vestan Móru.

                Í grein 2.5. kemur fram að hitaveita sé á staðnum og hún sé í eigu Vesturbyggðar. Vesturbyggð mun virða að öllu leyti þá samninga sem í gildi hafa verið varðandi nýtingu á heitu vatni á svæðinu. Nýting á heitu vatni til nýrra bygginga á svæðinu mun því verða háð því að samkomulag náist við eigendur um nýtingu vatnsins. Í ljósi framkominna athugasemda þykir rétt að fella út fyrrgreint ákvæði í greinargerð með deiliskipulagstillögunni um að nýtt byggingarsvæði vestan Móru muni tengjast núverandi kerfi.

                4. Mótmæli varðandi skipulag á fjórum nýjum lóðum norðan við núverandi íbúðarbyggð.

                Í deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir fjórum nýjum lóðum norðan við núverandi íbúðarbyggð á Krossholtum. Þessar lóðir eru á stórum hluta utan þess lands sem er í eigu Vesturbyggðar. Ástæða þess að gert er ráð fyrir þessum nýju lóðum í deiliskipulagstillögunni er að þetta eru mjög góðar byggingarlóðir og auðvelt að tengja þær við núverandi gatna- og veitukerfi á svæðinu. Skipulags ?og byggingarnefnd lagði til að umræddar lóðir yrðu skilgreindar sem mögulegar íbúðarlóðir sé horf til framtíðar og áleit það landeigendum jarðarinnar Kross í hag. Nýting þessa svæðis sem byggingalóða er háð samþykki landeigenda en sé ekki vilji til þess að hálfu landeigenda að bæta við fyrrgreindum lóðum er auðvelt að fella þær út úr deiliskipulagstillögunni. Í ljósi framkominna athugasemda landeigenda þykir rétt að gera þá breytingu á deiliskipulagstillögunni að ekki verði gert ráð fyrir þessum fjórum nýju byggingarlóðum norðan við núverandi íbúðabyggð á Krossholtum.

                5. Athugasemdir varðandi ákvæði greinar 4.2. um að samþykktar byggingarnefndarteikningar fyrir lóð undir landbúnaðartengda þjónustu gildi sem skipulagsskilmálar fyrir fyrrgreinda lóð.

                Í greinargerð með deiliskipulagstillögunni kemur fram að um bygginguna gilda samþykktar byggingarnefndarteikningar sem skipulagsskilmálar fyrir fyrrgreinda lóð sem ætluð er undir landbúnaðartengda ferðaþjónustu. Núverandi bygging er 221,1 m2 og mænishæð byggingarinnar miðað við gólfkóta er 4,21 m. Heimilt er að stækka bygginguna til norðurs og skal útlit viðbyggingar vera í samræmi við núverandi byggingu hvað varðar útlit og efnisval. Niðurstaða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 2. september 2011 í málinu nr. 43/2011 byggðist eingöngu á því að fyrrgreind bygging hafi ekki fallið að skilgreindri landnotkun gildandi aðalskipulags og því hafi ekki verið fullnægt skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis sem sett er í 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 um að mannvirkið og notkun þess skuli samræmast skipulagsáætlunum á svæðinu.

                6. Athugasemdir sem lúta að því að skilgreina þurfi betur nýtingu lóðar, einkum útisvæðis svo og þá starfsemi sem á að vera í þeirri byggingu sem hefur verið reist af Móru ehf. og ætluð er fyrir landbúnaðartengda ferðaþjónustu. Vísað er í þessu sambandi til kafla 4.5.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

                Í greinargerð með deiliskipulagstillögunni kemur fram að innan lóðar fyrir ferðaþjónustu séu gerðar kröfur um að allur frágangur og umgengni sé til fyrirmyndar. Sex bílastæði skulu fylgja lóðinni þar af eitt fyrir hreyfihamlaða. Um lóðina gildir samþykkt um búfjárhald í Vesturbyggð frá 24. apríl 2011. Varðandi aðra nýtingu á útisvæði vestan Móru skal tekið fram að gert er ráð fyrir gönguleiðum meðfram Móru, en ekki er gert ráð fyrir öðrum sérstökum útisvæðum.

                7. Athugasemdir varðandi fjarlægð fyrirhugaðrar bygginga á verslunar- og þjónustusvæði frá stofnvegi.

                Í lok janúar s.l. tók gildi ný skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar segir m.a. ,, Utan þéttbýlis skal ekki staðsetja íbúðir eða frístundahús nær stofn- og tengivegum en 100 m. og ekki nær öðrum þjóðvegum eða almennum vegum en 50 m eins og þeir eru skilgreindir í aðalskipulagi. Aðrar byggingar skal ekki staðsetja nær stofn- og tengivegum og öðrum þjóðvegum og almennum vegum en 50 m eins og þeir eru skilgreindir í aðalskipulagi. Heimilt er að víkja frá þessum ákvæðum þegar um er að ræða verslunar- og þjónustubyggingar en gæta skal ákvæða vegalaga um veghelgunarsvæði.

                8. Athugasemdir sem lúta að því að sú starfsemi og byggð sem fyrirhuguð er vestan árinnar Móru valdi ekki truflun fyrir veiðimenn og að þeir geti athafnað sig án vandkvæða. Þá er ítrekað að allar framkvæmdir innan 100 metra frá ánni sé háðar samþykki Fiskistofu.

                Ekkert i fyrirhugaðri deiliskipulagstillögu getur tilefni til að ætla að fyrirhuguð starfsemi eða byggð vegna árinnar Móru komi til með að valda truflun fyrir veiðimenn eða að þeir geti ekki athafnað sig með eðlilegum hætti við veiðar í ánni. Leitað hefur verið umsagnar Fiskistofu um deiliskipulagstillöguna. Í umsögn Fiskistofu kemur fram að Fiskistofa hafi ekki athugasemdir við tillöguna.

                9. Athugasemdir um að óljóst sé með staðsetningu á rotþróm.

                Í greinargerð með tillögu að deiliskipulagi er m.a. fjallað um veitukerfi. Í grein 2.5. er m.a. fjallað um fráveitu austan Móru, en þar segir; ,,Frárennslislagnir verða í götustæðum. Stærð og umfang hreinsimannvirkis er háð samþykki Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða.” Varðandi fráveitu vestan Móru segir í greinargerðinni; ,, Staðsetning á rotþróm og frárennslislögnum fyrir hvern bústað er ekki sýnt á skipulagsuppdrætti en verða sýndar á byggingarnefndarteikningum.

                10. Athugasemdir varðandi fyrirkomulag sorphirðu fyrir lóðarhafa vestan Móru.

                Gerð er grein fyrir fyrirkomulagi sorphirðu í grein 2.5 í greinargerð með tillögu að deiliskipulagi. Þar kemur fram að vestan Móru skulu lóðarhafar sjá um að koma sorpi í gámasvæði á vegum Vesturbyggðar sem verði staðsett við aðkomuveg inn á svæðið.
                Með vísan til fyrirliggjandi umsagnar Björns Jóhannessonar hrl. er lagt til við bæjarstjórn að deiliskipulagið verði samþykkt
                Að öðru leyti vísar nefndin til stuðnings umsagnar Björns Jóhannessonar hrl. og gerir umsögn hans að sinni. Skipulags -og byggingarnefnd samþykkir tillöguna og felur byggingarfulltrúa að ganga frá tillögunni til afgreiðslu skv. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010

                  Málsnúmer 1110041 4

                  Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


                  Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 11:30