Fundur haldinn í fjarfundi, 10. mars 2022 og hófst hann kl. 16:00
Nefndarmenn
- Friðbjörg Matthíasdóttir (FM) aðalmaður
- Jóhann Pétur Ágústsson (JPÁ) aðalmaður
- Ásdís Snót Guðmundsdóttir (ÁSG) varamaður
- Jón Garðar Jörundsson (JGJ) aðalmaður
Starfsmenn
- Elfar Steinn Karlsson (ESK) byggingafulltrúi
- Geir Gestsson (GG) sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs
Fundargerð ritaði
- Elfar Steinn Karlsson byggingarfulltrúi
Almenn erindi
1. Balar 2, umsókn um byggingaráform.
Erindi frá Skemman Vatneyri ehf, dags. 6. mars 2022. Í erindinu er sótt um samþykki byggingaráforma fyrir tveimur fjölbýlishúsum við Bala 2, Patreksfirði. Um er að ræða tvö fjölbýlishús, bæði á tveimur hæðum með samtals 15-20 íbúðum. Áætluð stærð íbúða er á bilinu 40-90 m2. Erindinu fylgja teikningar unnar af Pro-Ark teiknistofu, dags. 4.mars 2022.
Til leiðréttingar þá er lóðin sem um ræðir Balar 2, ekki Balar 1-2 eins og framkvæmdaraðila hafði verið kynnt áður og hafði verið samþykkt á 90. fundi skipulags- og umhverfisráðs og 365. fundi bæjarstjórnar.
Svæðið er skilgreint sem íbúðarsvæði skv. gildandi aðalskipulagi Vesturbyggðar.
Skipulags- og umhverfisráð samþykkir byggingaráformin með fyrirvara um jákvæða niðurstöðu grenndarkynningar. Skipulags- og umhverfisráð óskar eftir því við framkvæmdaraðila að frekari gögn verði útbúin fyrir grenndarkynninguna, svo sem ásýndarmynd þar sem húsið gæti haft áhrif á útsýni.
Ráðið felur skipulagsfulltrúa að grenndarkynna framkvæmdina fyrir eigendum fasteignanna að Bölum 4-6, 13, 15 og 17, Aðalstrætis 87a, 89,90, 92 og 97, Sigtúns 37, 49 og 57 og Brunnar 10, 12 og 14.
2. Deiliskipulag Selárdal. Ósk um breytingu á skipulagi.
Tekin fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulagi Selárdals frá Loga Ragnarssyni og Jóhönnu Steingrímsdóttur, dagsett 4. mars 2022. Í erindinu er óskað eftir að staðsetningu tjaldsvæðis verði breytt eins og hún er sýnd í gildandi deiliskipulagi og reiturinn færður þar sem salernisaðstaða er staðsett í dag. Með erindinu fylgir samþykki Ríkiseigna, sem landeiganda, sem setur sig ekki upp á móti áformunum.
Skipulags- og umhverfisráð samþykkir að reitur sem, samkvæmt gildandi deiliskipulagi er skilgreindur sem tjaldsvæði verði skilgreindur sem hverfisverndarsvæði og nýr reitur fyrir tjaldsvæði skilgreindur sunnan við salernisaðstöðu.
Skipulags- og umhverfisráð vekur athygli á að ekki er formlegur rekstur á tjaldsvæði í Selárdal og mun þessi breyting ekki hafa áhrif á það.
Skipulags- og umhverfisráð samþykkir umsóknina og heimilar að farið verði af stað í óverulega breytingu á deiliskipulaginu sem verði grenndarkynnt fyrir húseigendum í Selárdal.
3. Fjósadalur deiliskipulag sorpsöfnunnarsvæði
Tekin fyrir tillaga að deiliskipulag sorpsöfnunarsvæðis í Fjósadal á Patreksfirði, dagsett 13. janúar 2022. Fyrirhugað er að færa aðstöðu fyrir móttöku og flokkunaraðstöðu sorps á Patreksfirði í þeim tilgangi að bæta aðstöðu þjónustuverktaka. Deiliskipulagssvæðið er um 0,5 ha að stærð og er staðsett neðst í Fjósadal.
Skipulags- og umhverfisráð samþykkir fyrirliggjandi tillögu og felur skipulagsfulltrúa að auglýsa tillöguna skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
4. Bíldudalsvegur nr. 63 um Mikladal, umsókn um framkvæmdaleyfi.
Lagt fram erindi Vegagerðarinnar frá 9. mars 2022 þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir endurbyggingu á 4.9km kafla á Bíldudalsveg(63) um Mikladal. Meðfylgjandi umsókninni eru uppdrættir af fyrirhuguðum framkvæmdasvæðum.
Áætlaður framkvæmdatími er 2 ár, stefnt verður að því að klára að leggja bundið slitlag á 2 km í ár og tæplega 3 á næsta ári, framkvæmdarlok eru 1. September 2023.
Skipulags- og umhverfisráð beinir því til Vegagerðarinnar að hugað verði að nýjum gatnamótum Bíldudalsvegar(63) og Barðastrandarvegar(62) ofan kirkjugarðs á Patreksfirði á framkvæmdatíma.
Skipulags- og umhverfisráð leggur til við Bæjarstjórn Vesturbyggðar að skipulagsfulltrúa verði heimilt að veita framkvæmdaleyfi sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Til kynningar
6. Breyting á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020, vinnutillaga um veglagningu á Dynjandisheiði
Lögð fram til kynningar tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 vegna vegar um Dynjandisheiði.
Markmiðið með aðalskipulagsbreytingunni er að gera heilsárssamgöngur mögulegar um Vestfjarðaveg, milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða. Dýrafjarðargöng voru tekin í notkun í október 2020 en þau munu ekki nýtast að fullu fyrr en heilsársvegur hefur verið gerður yfir Dynjandisheiði.
Aðalskipulagsbreytingin heimilar tvær útfærslur á veglínu, leiðir D og F í umhverfismati Vegagerðarinnar, þar sem ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvor línan verður fyrir valinu við endurgerð vegarins. Breytingin heimilar einnig sex ný efnistökusvæði á skipulagssvæðinu.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:35