Fundur haldinn í fjarfundi, 21. apríl 2021 og hófst hann kl. 16:00
Nefndarmenn
- Barði Sæmundsson (BS) aðalmaður
- Friðbjörg Matthíasdóttir (FM) aðalmaður
- Jóhann Pétur Ágústsson (JPÁ) aðalmaður
- Ásdís Snót Guðmundsdóttir (ÁSG) varamaður
- Jón Garðar Jörundsson (JGJ) aðalmaður
Starfsmenn
- Elfar Steinn Karlsson (ESK) byggingafulltrúi
- Óskar Örn Gunnarsson (ÓÖG) skipulagsfulltrúi
Fundargerð ritaði
- Elfar Steinn Karlsson byggingarfulltrúi
Almenn erindi
1. Orlofsbyggðin Flókalundi - Deiliskipulag
Tekin fyrir lýsing á deiliskipulagi Orlofsbyggðar Flókalundar, dagsett í mars 2021.
Innan skipulagssvæðisins eru alls fimmtán hús, þrettán þeirra eru orlofshús, eitt þjónustuhús fyrir sundlaug og loks þjónustuhús fyrir starfsemi orlofsbyggðarinnar.
Markmið stjórnar orlofsbyggðarinnar er að fjölga orlofshúsum á svæðinu um u.þ.b. 15 hús, ásamt því að gera ráð fyrir stækkun þjónustu- og sundlaugarhúsum.
Skipulagslýsingin er samþykkt og skipulagsfulltrúa falið að óska umsagnar og auglýsa lýsinguna skv. 40 gr. skipulagslaga nr.123/2010 með fyrirvara um samþykki landeigenda.
2. Fyrirspurn, viðbygging við Strandgötu 1, Bíldudal.
Jón Garðar Jörundsson vék af fundi.
Fyrirspurn frá Arnarlax ehf. dags. 8. apríl. Í erindinu er óskað eftir afstöðu skipulags- og umhverfisráðs til viðbyggingar við Strandgötu 1, Bíldudal. Hugmyndin er að stækka verkstæði við Strandgötu 1 um 57 m2 til suðvesturs. Byggingin yrði 5m á breidd og tæpir 11,5m á lengd. Stækkunin er fyrir utan byggingarreit og lóð Strandgötu 1.
Skipulags- og umhverfisráð tekur jákvætt í erindið. Óska þarf eftir stækkun á lóð Strandgötu 1 sem viðbyggingunni nemur. Grenndarkynna þarf framkvæmdina þar sem stækkunin er utan byggingarreits. Erindinu er vísað áfram til Hafna- og atvinnumálaráðs.
Jón Garðar Jörundsson kom aftur inn á fundinn.
3. Dalbraut 30. Umsókn um leyfi fyrir bílskúr og lóðarstækkun.
Erindi frá Lása ehf. dags. 11. apríl. Í erindinu er sótt um leyfi fyrir byggingu 60m2 bílskúrs SV við íbúðarhúsið að Dalbraut 30 og samsvarandi lóðarstækkun.
Skipulags- og umhverfisráð tekur jákvætt í erindið, grenndarkynna þarf framkvæmdina. Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að lóðin verði stækkuð um 5m til SV.
4. Umsókn um leyfi fyrir tímabundnu húsnæði við Völuvöll.
Jón Garðar Jörundsson og Ásdís Snót Guðmundsdóttir véku af fundi.
Tekin fyrir umsókn frá Arnarlax um leyfi fyrir tímabundnu húsnæði við Völuvöll. Erindið var tekið fyrir á 81. fundi skipulags- og umhverfisráðs þar sem samþykkt var að gera óverulega breytingu á Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018. Skipulagsstofnun heimilaði með afgreiðslubréfi, dagsett 10. mars 2021 en áður en hún getur staðfest breytinguna í samræmi við 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga þá þurfi að liggja fyrir yfirlýsing frá hagsmunaaðilum á svæðinu um að þeir geri ekki athugasemd við staðsetningu tímabundins húsnæðis á svæðinu. Breytingartillagan ásamt upplýsingum um áformin voru send til stjórnar Gólfklúbbs Bíldudals, landeiganda jarðarinnar Litlu-Eyrar og fræðslu- og æskulýðsráðs Vesturbyggðar.
Umsagnir bárust frá stjórn Golfklúbbs Bíldudals, landeigendum Litlu-Eyrar og fræðslu- og æskulýðsráði.
Skipulags- og umhverfisráð felur skipulagsfulltrúa að senda óverulegu breytinguna ásamt umsögnum til Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga, en vekur athygli bæjarstjórnar á því að tryggja þarf aðkomu að svæðinu sbr. athugasemd landeigenda Litlu-Eyrar.
Þá ítrekar ráðið að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða og leggur til að í samningi um svæðið verði ákvæði um að Arnarlax skuli skila inn áætlun innan eins árs frá dagsetningu samningsins um hvernig Arnarlax hyggist mæta þeirri húsnæðisþörf til framtíðar sem tímabundna húsnæðinu er ætlað að mæta.
Jón Garðar Jörundsson og Ásdís Snót Guðmundsdóttir komu aftur inn á fundinn.
5. Umsókn um lóð fyrir björgunarsveitarhús.
Erindi frá Björgunarsveitinni Blakk, ódags. Í erindinu er óskað eftir lóð á Patreksfirði fyrir nýtt björgunarsveitarhús, húsið þarf að vera um 4-500m2 að grunnfleti að frátaldri lóð umhverfis húsið en núverandi húsnæði er sprungið utan af sveitinni og annar ekki lengur starfsemi sveitarinnar.
Byggingarfulltrúa falið að skoða möguleg svæði með forsvarsmönnum Björgunarsveitar Blakks undir húsið samkvæmt skilmálum nýs aðalskipulags sem nú er að fara í auglýsingu.
6. Jarðstrengur milli Mjólkár og Bíldudals -beiðni um umsögn
Lagt fram bréf Jóns Ágústs Jónssonar, f.h. Skipulagsstofnunar, dags. 13. apríl 2021, þar sem óskað er umsagnar Vesturbyggðar um fyrirhugaða lagningu 66 kv jarðstrengs milli Mjólkár og Bíldudals og sæstrengs yfir Arnarfjörð.
Meginmarkmið framkvæmdarinnar er að tryggja áreiðanleika raforkuafhendingar á sunnanverðum Vestfjörðum.
Lagður verður nýr um 3 km langur 66 kV jarðstrengur frá iðnaðarsvæði sunnan við Bíldudal meðfram sunnanverðum Bíldudalsvogi að landtaki áður en komið er að Haganesi. Þaðan verður um 11,4 km langur, 66 kV sæstrengur lagður yfir Arnarfjörð fyrir Langanes með landtak í Auðkúlubót. Að lokum verður svo lagður um 16 km langur 66 kV jarðstrengur frá Mjólká og að landtaki sæstrengs í Auðkúlubót, að mestu samhliða þjóðvegi nr. 60, Vestfjarðavegi milli Mjólkár og Hrafnseyrar.
Skipulags- og umhverfisráð hefur farið yfir gögn framkvæmdaraðila og telur að framlögð gögn fullnægi kröfum sem settar eru fram í 11 gr. í reglugerð 660/2015. Skipulags- og umhverfisráði telur að framkvæmdin sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum, þá vekur ráðið athygli á að sá hluti framkvæmdarinnar er fellur innan Vesturbyggðar er háð framkvæmdaleyfi bæjarstjórnar.
7. Dufansdalur-Efri land 2, Ósk um stofnun lóðar
Erindi frá Guðrúnu I. Halldórsdóttur og Brynhildi Halldórsdóttur ódags. Í erindinu er óskað eftir stofnun 11,7ha lóðar úr Dufansd. Efri land 2. Nýja lóðin skal heita Dufansdalur fremri. Erindinu fylgir lóðaruppdráttur sem og umsóknareyðublað.
Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að stofnun lóðarinnar verði samþykkt.
8. Efnisvinnsla Tagl - umsókn um framkvæmdaleyfi.
Erindi frá Vegagerðinni, dags. 16. apríl 2021. Í erindinu er óskað eftir heimild sveitarfélagsins til efnistöku í námu við Tagl á Bíldudal, alls um 20.000 m3. Jarðfræðingur á vegum Vegagerðarinnar skoðaði námuna í apríl 2021 og áætlar að taka megi allt að 84.000m3 úr námunni til viðbótar. Erindinu fylgir afstöðumynd af námunni sem og tölvupóstur frá jarðfræðingi Vegagerðarinnar.
Á 327. fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar sem haldinn var 24. október 2018 var samþykkt að veita framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr námunni fyrir allt að 30.000m3.
Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn Vesturbyggðar að gefið verði út endurnýjað framkvæmdaleyfi sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 vegna efnisvinnslu í Tagli fyrir allt að 49.000m3, þar sem um er að ræða námu sem þegar er opin og umfangið þannig að hún er ekki háð umhverfismati.
Varðandi sölu á efni úr námunni til Vegagerðarinnar þá er erindinu vísað áfram til bæjarráðs.
9. Hjallar 24, umsókn um byggingaráform
Tekið fyrir eftir grenndarkynningu byggingaráform við Hjalla 24, Patreksfirði. Óskað er eftir að fá að reisa 241,6 m2 einbýlishús við Hjalla 24, Patreksfirði. Áformin voru grenndarkynnt fyrir eigendum fasteignanna að Hjöllum 19, 20, 21, 23, 25, 26 og Brunnum 19, 21, 23 og 25 frá 18.mars til 15.apríl 2021.
Engar athugasemdir bárust um áformin.
Skipulags- og umhverfisráð samþykkir grenndarkynninguna.
10. Dalbraut 43, Bíldudal. Ósk um endurnýjun lóðarleigusamnings.
Erindi frá Landsbankanum hf. dags. 25. mars 2021. Í erindinu er sótt um endurnýjun lóðarleigusamning fyrir Dalbraut 43 á Bíldudal. Erindinu fylgir lóðaruppdráttur.
Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn Vesturbyggðar að erindið verði samþykkt.
11. Umsókn um framkvæmdaleyfi til skógræktar á lögbýlinu Fossá m.Hamri Barðaströnd
Lagt fram erindi Bjarna Össurarsonar Rafnar og Sigrúnar Þorgeirsdóttur dags. 1. október 2020 þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi til skógræktar í landi Fossár (landnúmer 139798) á 21.5 ha svæði. Meðfylgjandi erindinu er hnitsettur uppdráttur, fornleifaskráning og umsögn Minjavarðar.
Skógræktarsvæðið var áður nýtt sem beitiland en búskapur hefur ekki verið á jörðinni í fjölda ára. Svæðið er ekki á náttúruminjaskrá eða nýtur sérstakrar verndar skv. lögum um náttúruvernd. Alls voru skráðir 19 stakir minjastaðir innan og skammt utan svæðisins. 13 þeirra eru búsetuminjar jarðarinnar Fossár og 6 tengjast leið yfir Fossárháls. 17 minjar eru sýnilegar og 2 eru heimildir um minjar. Svæðið sem um ræðir er á Öskjudal, milli Bóllækjar og Öskjudalsár, ofan núverandi þjóðvegar. Sérstök aðgát skal höfð við framkvæmdir og rask í nágrenni skráðra fornleifa og ofangreindir minjastaðir njóta 15 metra friðhelgs svæðis við hverskonar framkvæmdir skv. lögum um menningarminjar nr. 80/2012.
Framkvæmdin er í samræmi við gildandi aðalskipulag Vesturbyggðar 2006-2018 þar sem svæðið er skilgreint sem landbúnaðarland og heimilt að vera með skógrækt.
Skipulags- og umhverfisráð samþykkir að skipulagsfulltrúa verði heimilt að veita framkvæmdaleyfi sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
12. Vesturbyggð - Aðalskipulag 2018-2030
Fyrir liggur tillaga að endurskoðuðu Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2018-2035. Tillagan var forkynnt skv. 30 gr. Skipulagslaga nr. 123/2010 í lok árs 2020 og kynnt á íbúafundi 9. febrúar 2021.
Tillagan hefur verið send til umsagnaraðila og umsagnir liggja fyrir frá eftirfarandi aðilum: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Náttúrufræðistofnun Íslands, Samgöngustofu, Vegagerðinni, Breiðafjarðarnefnd, Fiskistofu, Minjastofnun, Umhverfisstofnun, Landgræðslunni, Tálknafjarðarhreppi og Veðurstofu Íslands. Fyrir liggur samantekt skipulagsfulltrúa á innsendum umsögnum og mögulegum viðbrögðum.
Skipulagsstofnun hefur heimilað auglýsingu á tillögunni, með bréfi dagsett 25. mars þegar tekið hefur verið tillit til athugasemda stofnunarinnar eða að tillagan verði auglýst með athugasemdum Skipulagsstofnunar.
Skipulags- og umhverfisráð samþykkir framlagða tillögu að endurskoðuðu Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2018-2035 og leggur til við bæjarstjórn að tillagan og umhverfisskýrsla verði auglýst skv. 31. gr skipulagslaga nr. 123/2010 ásamt athugasemdum skipulagsstofnunar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:40