Fundur haldinn í Svörtuloftum, fundarsal í Ráðhúsi Vesturbyggðar, 17. september 2019 og hófst hann kl. 16:00
Fundinn sátu
- Barði Sæmundsson (BS) aðalmaður
- Friðbjörg Matthíasdóttir (FM) aðalmaður
- Jóhann Pétur Ágústsson (JPÁ) aðalmaður
- Ásdís Snót Guðmundsdóttir (ÁSG) varaformaður
- Jón Garðar Jörundsson (JGJ) aðalmaður
Fundargerð ritaði
- Elfar Steinn Karlsson byggingarfulltrúi
Almenn erindi
1. Fífustaðadalur - Tilkynning um framkvæmdir, Votlendissjóðurinn
Rebekka Hilmarsdóttir kom inn á fundinn.
Erindi frá Bjarna Jónssyni f.h. Votlendissjóðs. Í erindinu er tilkynnt um áform Votlendissjóðs um endurheimt votlendis í Fífustaðadal, Ketildölum. Jafnframt er í erindinu tilkynnt að æskilegt væri að unnið verði að endurheimt á ríkisjörðunum Selárdal og Uppsölum í Selárdal. Bréfritari vekur athygli á að mikilvægt sé að hafa í huga að ávinningur í loftlagsmálum er mikill og er áætlaður ávinningur við endurheimt í Selárdal og Uppsölum um 818 tonn af CO2 ígildum á hverju ári. Heildar ávinningur framkvæmda í Selárdal og Fífustaðadal er áætlað um 1.958 t af CO2 ígildum á ári samkvæmt bréfritara.
Skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar getur ekki mælt með að endurheimt votlendis fari fram á um 57 hektara svæði í Fífustaðadal í Ketildölum og telur auk þess að framkvæmdin sé háð framkvæmdaleyfi og sé tilkynningarskyld sem framkvæmd í flokki B til Skipulagsstofnunar.
Ennfremur telur ráðið ekki tímabært að farið verði í endurheimt votlendis á jörðunum Uppsalir og Selárdal sem einnig eru í Ketildölum. Skipulags- og umhverfisráð telur brýnt að áður en heimildir verði gefnar til einstaka landeigenda um endurheimt votlendis, verði farið í stefnumótun í sveitarfélaginu um endurheimt votlendis og í framhaldi af því að forgangsröðun svæða fari fram með tilliti til mögulegrar kolefnisjöfnunar og landbúnaðar á þeim svæðum sem um ræðir og að auki hafi farið fram ítarlegar rannsóknir á mögulegri losun á svæðunum.
Rebekka Hilmarsdóttir vék af fundi.
2. Umsögn - Endurskoðun Aðalskipulags Tálknafjarðarhrepps 2019-2031
Fyrir liggur lýsing á endurskoðun Aðalskipulags Tálknafjarðarhrepps 2006-2018, dagsett í júní 2019.
Skipulags- og umhverfisráð gerir ekki athugasemdir við lýsingu og telur að í henni komi ágætlega fram hverjar helstu áherslur eru í endurskoðununni. Vesturbyggð áskilur sér rétt að gera athugasemdir á seinni stigum og vill benda á náið samráð um einstaka þætti sem snerta sameiginlega hagsmuni sveitarfélaganna.
3. Hjótur 1, Örlygshöfn, L139872 - Gerð deiliskipulags.
Tekin fyrir Hnjótur 1 deiliskipulag, lýsing skipulagsverkefnis.
Hafin er undirbúningur við gerð deiliskipulags við Hnjót 1 en um er að ræða skilgreiningu á tjaldsvæði og svæði fyrir verslun og þjónustu. Samhliða deiliskipulaginu verður unnin breyting á aðalskipulagi sem verður auglýst samtímis.
Skipulagslýsingin er samþykkt og skipulagsfulltrúa falið að óska umsagnar og auglýsa lýsinguna skv. 40 gr. skipulagslaga nr.123/2010.
4. Hnjótur 1. Breyting á aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018
Tekin fyrir breyting á Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018, Breyting við Hnjót 1 lýsing skipulagsverkefnis, dagsett 11. september 2019.
Hafinn er undirbúningur við gerð deiliskipulags við Hnjót 1 í Vesturbyggð en um er að ræða breytta landnotkun, frá landbúnaðarlandi yfir í verslun og þjónustu. Deiliskipulagstillaga þessi kallar á breytingu á Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018. Eftirfarandi lýsing er í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Breytingin tekur til skilgreiningar á nýju svæði verslunar- og þjónustu V10, stærð svæðisins er undir 5 ha og verður því markað hring á uppdrætti aðalskipulagsins.
Unnið er að deiliskiplagstillögu samhliða aðalskipulagsbreytingunni og verða tillögurnar auglýstar samtímis.
Skipulagslýsingin er samþykkt og skipulagsfulltrúa falið að óska umsagnar og auglýsa lýsinguna skv. 30 gr. skipulagslaga nr.123/2010.
5. Ósk eftir landi í Mikladal
Erindi vísað til skipulags- og umhverfisráðs frá 877. fundi bæjarráðs Vesturbyggðar. Erindi frá Gísla Rúnari Kristinssyni f.h. Motowest dags. 26. júlí 2019, þar sem óskað er eftir landi í Mikladal undir krossbraut. Áhugi á mótorsporti á sunnanverðum Vestfjörðum hefur farið vaxandi síðastliðin ár og myndi krossbraut auka forvarnargildi hjá unglingum, stuðla að hreyfingu og koma í veg fyrir utanvegar akstur.
Skipulags- og umhverfisráð tekur jákvætt í erindið og bendir á að finna þarf nýjan stað fyrir óvirkan úrgang ef svæðið verður tekið til þessara nota. Ennfremur bendir ráðið á að svæði sem þetta er deiliskipulagsskylt.
6. Vesturbyggð - Aðalskipulag 2018-2030
Sölvi Sólbergsson framkvæmdastjóri orkusviðs OV og Jónas Heiðar Birgisson fulltrúi í stýrihóp við endurskoðun Aðalskipulags Vesturbyggðar 2018-2030 komu inn á fundinn.
Sölvi Sólbergsson, framkvæmdastjóri orkusviðs OV kynnti hugmyndir Orkubús Vestfjarða ohf. varðandi virkjanakost í Vatnsfirði, Barðaströnd í tengslum við endurskoðun aðalskipulags Vesturbyggðar 2018-2030.
Sölvi Sólbergsson og Jónas Heiðar Birgisson véku af fundi.
7. Brunnar Patreksfirði, gangstígur
Erindi frá Jónasi H. Birgissyni. Í erindinu er þess óskað að við gerð fjárhagsáætlunar 2020 verði gert ráð fyrir gangstéttagerð á Brunnum á Patreksfirði auk þess að setja grindur yfir opin niðurföll og handrið á brú.
Skipulags- og umhverfisráð þakkar fyrir gott erindi og vísar málinu áfram til vinnu við fjárhagsáætlunar 2020.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:15