Fundur haldinn í Svörtuloftum, fundarsal í ráðhúsi Vesturbyggðar, 9. júlí 2020 og hófst hann kl. 16:00
Nefndarmenn
- Barði Sæmundsson (BS) aðalmaður
- Friðbjörg Matthíasdóttir (FM) aðalmaður
- Jóhann Pétur Ágústsson (JPÁ) aðalmaður
- Jóhanna Gísladóttir (JG) aðalmaður
- Jón Garðar Jörundsson (JGJ) aðalmaður
Starfsmenn
- Elfar Steinn Karlsson (ESK) byggingafulltrúi
- Óskar Örn Gunnarsson (ÓÖG) skipulagsfulltrúi
Fundargerð ritaði
- Elfar Steinn Karlsson byggingarfulltrúi
Almenn erindi
1. Umsókn um byggingarleyfi - utanhússklæðning.
Erindi frá íslenska Kalkþörungafélaginu dags. 29. maí. Í erindinu er sótt um byggingarleyfi fyrir útlitsbreytingum og endurbótum á iðnaðarhúsi er stendur á Strandgötu 2, matshl 05. Á 35. fundi skipulags- og umhverfisráðs samþykkti ráðið niðurrif á húsinu.
Skipulags- og umhverfisráð samþykkir byggingaráformin og breytt áform varðandi niðurrif og vísar erindinu áfram til hafna- og atvinnumálaráðs.
2. Frístundabyggð undir Taglinu beiðni um úthlutun lóða
Tekið fyrir erindi dags. 27. febrúar 2020 frá Valdimar Gunnarssyni fyrir hönd óstofnaðs félags um beiðni um úthlutun 12 frístundarhúsalóða sem skipulagðar eru undir Taglinu á Bíldudal. Svæðið var deiliskipulagt 2011 og gerir deiliskipulagið ráð fyrir 12 frístundahúsalóðum, stærð lóðanna er á bilinu 0,7-1,12 ha. Einnig er gert ráð fyrir leiksvæði og boltavelli á svæðinu.
Erindinu fylgir minnisblað frá bæjarstjóra.
Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að úthlutunin verði samþykkt miðað við fyrirliggjandi forsendur. Ráðið leggur til að settur verði skýr tímarammi um verkefnið.
3. Aðalstræti 115. Fyrirspurn vegna bílskúrs.
Barði Sæmundsson vék af fundi.
Erindi frá Barða Sæmundssyni, dags. 3. júlí. Í erindinu er óskað eftir afstöðu skipulags- og umhverfisráðs um hvort nokkuð sé því til fyrirstöðu að byggja bílskúr á lóðinni að Aðalstræti 115 með aðkomu frá stofnbraut.
Erindinu fylgir afstöðumynd og útlitsteikning unnin af TAG teiknistofu dags. 3. júlí.
Skipulags- og umhverfisráð tekur jákvætt í erindið en vekur athygli umsækjanda á því að tenging við stofnbraut er háð samþykki Vegagerðar.
Barði Sæmundsson kom aftur inn á fundinn.
4. Lóðaleigusamningar fyrir Lönguhlíð 18 og 20 á Bíldudal
Erindi frá Vesturbyggð, dags. 26 júní. Í erindinu er sótt um endurnýjun lóðarleigusamninga við Lönguhlíð 18 og 20 á Bíldudal. Erindinu fylgir tillaga að lóðum umhverfis húsin ásamt minnisblaði frá bæjarstjóra. Til stendur að selja eignirnar.
Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkt verði endurnýjun lóðarleigusamninga fyrir eignirnar með eftirfarandi kvöðum sem umhverfis- og auðlindaráðherra setti sem skilyrði fyrir sölu eignanna með bréfi dags. 12. nóvember 2019.
a) Dvöl í húsunum er óheimil yfir vetrartímann, þ.e. frá 1. nóvember til 30. apríl sbr. kvaðir sem settar voru á notkun húsa í Súðavík. Frávik frá þessu, hvort sem eru til rýmkunar eða þrengingar á notkun eignarinnar, skulu í sérstökum tilvikum ákveðin af lögreglustjóra í samráði við almannavarnanefnd staðarins og Veðurstofu Íslands.
b) Óheimilt er að endurbyggja húsin ef þau verða fyrir umtalsverðu tjóni.
c) Verði húsin fyrir skemmdum af völdum ofanflóða mun Ofanflóðasjóður ekki greiða
bætur vegna skemmdanna til eigenda þeirra.
Afmörkun lóðanna skal vera í takt við umræður á fundinum, skipulags- og umhverfisráð felur byggingarfulltrúa að fullgera lóðablöð. Aðkoma að húsunum skal vera frá Lönguhlíð.
5. Framkvæmdaleyfi vegna endurheitar votlendis Fífustaðir í Fífustaðadal
Erindi frá Votlendissjóði, dags. 1. júlí 2020. Í erindinu er sótt um framkvæmdaleyfi að beiðni landeigenda fyrir endurheimt votlendis á um 57ha svæði á jörðinni Fífustöðum í Fífustaðadal, Arnarfirði. Áætlaður verktími er í ágúst og september 2020.
Samkvæmt erindinu eru skurðir á því svæði sem áætlað er að endurheimta votlendi á um 12,4 km að heildarlengd. Fyrirhugað er að fylla upp í hluta þessara skurða að fullu með gömlum uppgreftri sem að þeim liggur en í öðrum skurðum er áætlað að gera litlar "stíflur" með reglulegu millibili. Áhersla verður lögð á að vanda til verka, þjappa efni vel ofan í skurðstæði svo að fyllingar skolist ekki til og eins að taka til hliðar gróður úr skurðum og ofan af ruðningum til að þekja yfirborð rasksvæða og flýta þannig fyrir uppgræðslu þeirra.
Erindinu fylgir:
Yfirlitsmynd sem sýnir framkvæmdasvæði, skurði sem fylla á upp í og næsta nágrenni.
Bréf landeigenda Fífustaða til sveitarstjórnar Vesturbyggðar, dags. 7. október 2019.
Samingur milli Votlendssjóðs og landeigenda að Fífustöðum.
Minnisblað Eflu Verkfræðsistofu um matsskyldu endurheimtar votlendis, dags 16. október 2019.
Verkáætlun fyrir framkvæmdinni unnin af fagráði Votlendissjóðs
Tilkynning um framkvæmd við endurheimt, upprunalegur póstur frá 11. Júní 2019
Um endurheimt votlendis - upplýsingabæklingur frá Skipulagsstofnun.
Í upplýsingabæklingi Skipulagsstofnunar dags. nóvember 2019 varðandi endurheimt votlendis segir að endurheimt votlendis falli ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum.
Skipulags- og umhverfisráð samþykkir að skipulagsfulltrúa verði heimilt að veita framkvæmdaleyfi sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ráðið leggur til við framkvæmdaraðila að framkvæmdin verði þannig útfærð að ekki myndist slysagildrur fyrir dýr og menn.
6. Breyting á deiliskipulagi hafnarsvæðis á Patreksfirði
Tekin fyrir breyting á deiliskipulagi hafnarsvæðis á Patreksfirði eftir auglýsingu. Breytingartillagan var auglýst með athugasemdafresti til 18. júní 2020. Engar athugasemdir bárust frá almenningi en Olíudreifing gerði athugasemd við tillöguna og benti á reglugerð 188/1990 um eldfima vökva og fjarlægðamörk sem þar gilda sem og afgreiðslulagnir félagsins er liggja um lóðina. Skilmálar þess efnis var bætt við tillöguna.
Skipulags- og umhverfisráð samþykkir fyrir sitt leyti að tillagan fái málsmeðferð í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og beinir málinu til hafna- og atvinnumálaráðs.
7. Aðalskipulagsbreyting - Seftjörn fiskeldi
Tekin fyrir beiðni Krisínar Óskar Matthíasdóttur ásamt rökstuðningi um að Jóhann Pétur Ágústsson víki af fundum er tengjast málefnum umsækjanda og varðar dagskrárliði 7. og 8.
Í samræmi við 7. mgr 20. gr. sveitarstjórnarlaga er beiðnin lögð fyrir ráðið en samkvæmt 2. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga þá ber nefndarfulltrúa að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Nefndarfulltrúi verður þó að hafa sérstaka og verulega hagsmuna að gæta af afgreiðslu máls til að teljast vanhæfur.
Skipulags- og umhverfisráð telur þessum skilyrðum ekki fullnægt og hafnar beiðninni samhljóða.
Tekin fyrir breyting á Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018, vegna iðnaðarsvæðis við Þverá. Uppdráttur og greinargerð, dagsett 5. Júní 2020.
Breytingin felst í skilgreiningu á nýju iðnaðarsvæði (I10) undir starfsemi Eldisvarrar við Seftjörn lóð 1 á Barðaströnd. Stærð svæðisins er undir 5 ha og verður því markað með hring á uppdrætti aðalskipulagsins. Fiskeldi hefur verið starfrækt á svæðinu frá árinu 1984 en það hefur verið gert í ósamræmi við skipulag á svæðinu hingað til og því er þetta liður í að leiðrétta það. Einnig er áformað að fara í endurskipulagningu og frekari uppbyggingu á svæðinu. Gildandi starfsleyfi veitir heimild til þess að vinna allt að 200 tonn í land- og kvíaeldi.
Skipulags- og umhverfisráð samþykkir fyrirliggjandi tillögu og greinargerð í samræmi við 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og felur skipulagsfulltrúa að auglýsa tillöguna skv. 31. gr. sömu laga. Skipulagfulltrúa er falið að senda Skipulagsstofnun skipulagstillöguna til yfirferðar í samræmi við 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga, áður en tillagan verður auglýst.
Með erindinu fylgir einnig tilkynning framkvæmdaraðila til sveitarfélagsins þar sem eldið fellur undir c-flokk framkvæmda, lið 1.12 skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Niðurstaða skipulags- og umhverfisráðs er að umbeðin framkvæmd sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum, því til grundvallar er útfyllt eyðublað um ákvörðun um matskyldu c-flokks framkvæmda.
8. Deiliskipulag fyrir fiskeldi - Seftjörn.
Tekin fyrir deiliskipulag fyrir fiskeldi - Seftjörn lóð 1, en stærð þess er 1,9 ha og nær yfir núverandi mannvirki og næsta umhverfi fiskeldisstöðvarinnar á Seftjörn lóð 1 Þverá, Barðaströnd. Uppdráttur og greinargerð, dagsett 25. febrúar 2020 og endurskoðað 9. júní 2020.
Skipulags- og umhverfisráð samþykkir fyrirliggjandi tillögu og greinargerð í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og felur skipulagsfulltrúa að auglýsa tillöguna skv. 41. gr. sömu laga, samhliða breytingu á aðalskipulagi sama efnis.
9. Endurskoðun aðalskipulags Reykhólahrepps - Lýsing
Erindi frá skipulagsfulltrúa Reykhólahrepps dags. 29. júní 2020. Í erindinu er óskað umsagnar varðandi skipulagslýsingu vegna endurskoðunar á Aðalskipulagi Reykhólahrepps.
Skipulags- og umhverfisráð gerir ekki athugasemdir við lýsingu og telur að í henni komi ágætlega fram hverjar helstu áherslur eru í endurskoðuninni. Vesturbyggð áskilur sér rétt að gera athugasemdir á seinni stigum og vill benda á náið samráð um einstaka þætti sem snerta sameiginlega hagsmuni sveitarfélaganna.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:10
Óskar Örn Gunnarsson var viðstaddur í gegnum fjarfundarbúnað.