Fundur haldinn í Brellum, fundarsal í ráðhúsi Vesturbyggðar, 20. janúar 2021 og hófst hann kl. 17:00
Nefndarmenn
- Guðrún Eggertsdóttir (GE) varamaður
- Friðbjörg Matthíasdóttir (FM) aðalmaður
- Iða Marsibil Jónsdóttir (IMJ) formaður
- Jón Árnason (JÁ) aðalmaður
- Magnús Jónsson (MJ) aðalmaður
- María Ósk Óskarsdóttir (MÓÓ) aðalmaður
- Þórkatla Soffía Ólafsdóttir (ÞSÓ) aðalmaður
Starfsmenn
- Gerður Björk Sveinsdóttir (GBS) sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Fundargerð ritaði
- Gerður Björk Sveinsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Hljóðupptaka
Almenn erindi
1. Friðlýsing á Látrabjargi
Lagt fram erindi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins dags. 17. desember 2020, þar sem kemur fram að ráðuneytið í samvinnu við Bjargtanga, félag land- og sumarhúsaeigenda að Hvallátrum við Látrabjarg hafi undanfarin misseri unnið að friðlýsingu Látrabjargs. Í erindi ráðuneytisins kemur fram að eins og þekkt er þá er svæðið á náttúruverndaráætlun þar sem um eitt stærsta fuglabjarg Evrópu er að ræða, og flokkast svæðið sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Svæðið býr yfir mikilli náttúrufegurð og er fjölsóttur ferðamannastaður. Með erindinu eru lögð fram drög að friðlýsingarskilmálum. Óskað er eftir afstöðu bæjarstjórnar Vesturbyggðar til friðlýsingar Látrabjargs.
Til máls tók: Forseti,
Bæjarstjórn Vesturbyggðar ítrekar fyrri bókun sína af 346. fundi og fagnar áformum um friðlýsingu Látrabjargs. Mælt hefur verið fyrir um í aðalskipulagi Vesturbyggðar um árabil að svæðið verði friðlýst, með sérstakri áherslu á sjófuglabyggðir, fjörusvæði, minjar, útivist og fleira. Bæjarstjórn er sammála um að friðlýsing svæðisins sé nauðsynleg aðgerð í ljósi fjölda þeirra ferðamanna sem fer um svæðið ár hvert og tekur undir þau sjónarmið sem koma fram í friðlýsingarskilmálum svæðisins og fagnar því að skilmálarnir sem nú liggi fyrir séu unnir í góðu samráði við landeigendur. Með vísan til 38. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013 samþykkir bæjarstjórn Vesturbyggðar fyrir sitt leyti að Látrabjarg verði friðlýst.
2. Sameining sveitarfélaga - könnun á hagkvæmni
Lögð fram bókun bæjarráðs Vesturbyggðar af 912. fundi ráðsins 6. janúar 2021. Í bókuninni er lagt til við bæjarstjórn að unnin verði greining og könnun þess efnis hver sé hagkvæmni sameiningar Vesturbyggðar við Tálknafjarðahrepp og að bæjarstjóra verði falið að sækja um styrk til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, til að vinna slíka könnun.
Til máls tók: Forseti
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að fela bæjarstjóra að láta vinna greiningu og könnun á hagkvæmni þess að Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur sameinist og sækja til þess styrk til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Bæjarstjórn Vesturbyggðar telur nauðsynlegt að fyrir liggi greining á því hver raunveruleg hagkvæmni er af því að eitt sveitarfélag verði til á sunnanverðum Vestfjörðum, m.a. í ljósi þeirra fjárveitinga sem standa sveitarfélögum til boða vegna sameininga og með tilliti til samlegðaráhrifa og rekstrarhagkvæmni fyrir íbúa og atvinnulíf. Ljóst má vera að með ennfrekari uppbyggingu innviða á svæðinu, s.s. með gerð jarðganga undir Mikladal og Hálfdán verði til enn öflugri heild sem nauðsynlegt er að stilla saman með skilvirkum hætti. Óformlegt samtal sveitarfélaganna tveggja hefur ekki borið árangur né leitt til þess að sveitarfélögin standi tvö að slíkri greiningu og könnun.
3. Bygging fjögurra íbúða á Bíldudal - stofnframlög
Lögð fram drög að samningi Vesturbyggðar við Bæjartún íbúðafélag hses. um stofnframlög á grundvelli laga um almennar íbúðir nr. 52/2016, til byggingar fjögurra almennra íbúða, í 10 íbúða fjölbýlishúsi sem byggt verður við Hafnarbraut 9 á Bíldudal. Í samningnum er gert ráð fyrir stofnframlagi sem nemur 13.484.781 kr. sem nemur 12% af stofnvirði verkefnisins og skiptist í eftirgjöf á opinberum gjöldum og beinu fjárframlagi til húsnæðissjálfseignarstofnunarinnar. Bæjarráð Vesturbyggðar staðfesti samninginn fyrir sitt leyti á 911. fundi sínum 17. desember 2020 og vísaði honum til bæjarstjórnar til staðfestingar. Gert er ráð fyrir framlaginu í fjárhagsáætlun Vesturbyggðar fyrir árið 2021.
Til máls tók: Forseti
Bæjarstjórn staðfestir samninginn samhljóða.
4. Deiliskipulag fyrir fiskeldi - Seftjörn.
Tekin fyrir endurbætt tillaga að deiliskipulagi fyrir fiskeldi, Seftjörn lóð 1, lagfærð 11. janúar 2021. Fyrir liggur einnig umsögn Umhverfisstofnunar, dagsett 8. janúar 2021, en tekið hefur verið tillit til allra athugasemda í endurbættri tillögu að deiliskipulagi. Skipulags- og umhverfisráð tók málið fyrir á 80. fundi sínum 14. janúar 2021 og leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt.
Til máls tók: Forseti
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna og felur skipulagsfulltrúa afgreiðslu hennar skv. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
5. Reglur um sölu á lausafé Vesturbyggðar
Lögð fyrir drög að reglum um sölu lausafjár í eigu Vesturbyggðar. Í reglunum er mælt fyrir um að lausafé þar sem söluverðmæti er undir 500.000 kr. sé forstöðumanni heimilt að selja í beinni sölu án tilboða. Lausafé þar sem söluverðmæti er hærra en 500.000 kr. en lægra en 2 millj. kr. skal auglýsa í samræmi við reglurnar. Lausafé þar sem söluverðmæti er yfir 2 millj. kr. skal bæjarstjórn veita samþykki fyrir.
Til máls tók: Forseti
Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkir reglur um sölu lausafjár í eigu Vesturbyggðar og felur bæjarstjóra að undirrita þær og birta á heimasíðu sveitarfélagsins.
6. Reglur um dagforeldra í Vesturbyggð
Lögð fram drög að reglum um leyfisveitingu til daggæslu barna á Barðaströnd og reglur Vesturbyggðar um niðurgreiðslu vegna daggæslu barna á Barðasrönd. Reglurnar eru unnar í samræmi við áherslur í fjárhagsáætlun 2021, þar sem mælt er fyrir um aukinn stuðning við barnafjölskyldur á Barðaströnd. Samkvæmt reglunum mun þeim sem áhuga hafa á að starfa sem dagforeldri á Barðaströnd standa til boða aðstaða án endurgjalds í húsnæði Birkimelsskóla og þá styrkir sveitarfélagið viðkomandi dagforeldri til að sækja nauðsynleg námskeið sem og unnt er að sækja um stuðningsstyrk skv. reglum Vesturbyggðar. Fræðslu- og æskulýðsráð og velferðarráð hafa fjallað um drögin.
Til máls tók: Forseti
Bæjarstjórn vísar reglunum til bæjarráðs til frekari úrvinnslu og felur bæjarráði endanlega afgreiðslu.
Fundargerð
Lögð fram til kynningar fundargerð 13. fundar menningar- og ferðamálaráðs, fundurinn var haldinn 8. desember 2020. Fundargerðin er í 4 liðum.
Lögð fram til kynningar fundargerð 59. fundar samráðsnefndar Vesturbyggðar og Tálknafjarðahrepps, fundurinn var haldinn 17. desember 2020. Fundargerðin er í 6 liðum.
Lögð fram til kynningar fundargerð 911. fundar bæjarráðs, fundurinn var haldinn 17. desember 2020. Fundargerðin er í 15 liðum.
Lögð fram til kynningar fundargerð 912. fundar bæjarráðs, fundurinn var haldinn 6. janúar 2021. Fundargerðin er í 14 liðum.
Lögð fram til kynningar fundargerð 68. fundar fræðslu- og æskulýðsráðs, fundurinn var haldinn 13. janúar 2021. Fundargerðin er í 6 liðum.
Lögð fram til kynningar fundargerð 80. fundar skipulags- og umhverfisráðs, fundurinn var haldinn 14. janúar 2021. Fundargerðin er í 6 liðum.
Lögð fram til kynningar fundargerð 27. fundar hafna- og atvinnumálaráðs, fundurinn var haldinn 18. janúar 2021. Fundargerðin er í 4 liðum.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:19
Bæjarstjórn Vesturbyggðar kom saman til 356. fundar miðvikudaginn 20. janúar 2021 kl. 17:00 í Ráðhúsi Vesturbyggðar, Aðalstræti 75, Patreksfirði.
Ásgeir Sveinsson boðaði forföll í hans stað sat fundinn Guðrún Eggertsdóttir. Iða Marsibil Jónsdóttir setti fundinn og kannaði hvort athugasemdir væru við fundarboðun. Svo var ekki.