Hoppa yfir valmynd

Bæjarstjórn #368

Fundur haldinn í Brellum, fundarsal í ráðhúsi Vesturbyggðar, 16. febrúar 2022 og hófst hann kl. 17:00

Nefndarmenn
  • Ásgeir Sveinsson (ÁS) aðalmaður
  • Friðbjörg Matthíasdóttir (FM) aðalmaður
  • Iða Marsibil Jónsdóttir (IMJ) formaður
  • Magnús Jónsson (MJ) aðalmaður
  • Þórkatla Soffía Ólafsdóttir (ÞSÓ) aðalmaður
Starfsmenn
  • Arnheiður Jónsdóttir (AJ)
  • Rebekka Hilmarsdóttir (RH) bæjarstjóri

Fundargerð ritaði
  • Arnheiður Jónsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs

Bæjarstjórn Vesturbyggðar kom saman til 368. fundar miðvikudaginn 16. febrúar kl. 17:00. Fundurinn fór fram í Brellur, fundarsal bæjarstjórnar í Ráðhúsi Vesturbyggðar, Patreksfirði. Iða Marsibil Jónsdóttir setti fundinn og kannaði hvort athugasemdir væru við fundarboðun. Svo var ekki. María Ósk Óskarsdóttir boðaði forföll, í hennar stað situr fundinn Jörundur Garðarson. Jón Árnason boðaði forföll, í hans stað situr fundinn Davíð Þorgils Valgeirsson.

Almenn erindi

1. Tímabundin heimild til að taka þátt í fundum sveitarstjórna eða nefnda og ráða á vegum sveitarfélaga rafrænt

Lögð fram auglýsing nr.142/2022 um ákvörðun innviðaráðherra, með vísan til 1. mgr. 131. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011 þar sem sveitarstjórnum er veitt tímabundna heimild til að víkja frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga. Til að tryggja starfshæfi sveitarstjórna og til að auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitar­félaga er öllum sveitarstjórnum heimilt að taka ákvarðanir sem fela í sér tímabundin frávik frá ákvæðum sam­þykkta þeirra um stjórn sveitarfélaga, sem mæla fyrir framkvæmd fjarfunda, sbr. 2. mgr. 19. gr. sveitar­stjórnarlaga. Heimildin gildir til 31. mars 2022.

Með vísan til auglýsingarinnar er lagt til að svo tryggja megi starfhæfi bæjarstjórnar Vesturbyggðar og til að auðvelda ákvarðanatöku að heimilt verði að notast við fjarfundabúnað á fundum bæjarstjórnar og hjá fastanefndum Vesturbyggðar.

Til máls tóku: Forseti.

Bæjarstjórn samþykkir tillöguna.

    Málsnúmer 2111043 2

    Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


    2. Fjárhagsáætlun 2022 - viðaukar

    Lagður fyrir viðauki 1 við fjárhagsáætlun 2022 ásamt minnisblöðum byggingafulltrúa og sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs Vesturbyggðar. Um er að ræða viðauka vegna tveggja verkefna. Annars vegar vegna verkefnisins verndarsvæði í byggð, en fyrir liggur að fara þarf í fornleyfaskráningu og er áætlaður kostnaður 4,6 milljónir. Kostnaðinum er mætt með styrk frá Minjastofnun uppá 10,6 milljónir en hluti styrksins er vegna kostnaðar sem féll á verkið á fyrri stigum. Hins vegar er um að ræða fjárfestingarkostnað vegna kaupa og ísetningar lyftu í ráðhús Vesturbyggðar. Kostnaður vegna lyftunnar eru 6,8 milljónir og fékkst styrkur frá Jöfnunarsjóði að fjárhæð 2,9 milljónir á móti kostnaðinum.

    Viðaukinn hefur þau áhrif að rekstrarniðurstaða A hluta batnar um 6 milljónir og verður 76,2 milljónir. Rekstrarniðurstaða A og B hluta batnar um 6 milljónir og verður 50,1 milljón. Handbært fé í A hluta hækkar um 2,2 milljónir og verður 50 milljónir. Handbært fé í A og B hluta hækkar um 2,2 milljónir og verður 63,7 milljónir.

    Til máls tóku: Forseti.

    Bæjarstjórn samþykkir viðaukann samhljóða.

      Málsnúmer 2201042 13

      Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


      3. Viðauki við samning um skólaakstur breyting á akstursgjaldi

      Lagður fram viðauki við samning um skólaakstur í Vesturbyggð. Núverandi bifreið sem sinnir skólaakstri fyrir leik- og grunnskólabörn á Barðaströnd er orðinn of lítil vegna þeirrar jákvæðu þróunnar að börnum hefur fjölgað verulega á Barðaströnd, sem sækja skólaþjónustu á Patreksfjörð. Viðaukinn verður hluti af samningi við núverandi rekstraraðila sem undirritaður var 17. ágúst 2018. Í viðaukanum er kveðið á um hækkun á hvern ekinn kílómeter í samræmi við stækkun bifreiðarinnar.

      Til másls tóku: Forseti.

      Bæjarstjórn staðfestir viðaukann og felur bæjarstjóra að undirrita hann fyrir hönd Vesturbyggðar.

        Málsnúmer 2112020 2

        Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


        4. Endurskoðun samgönguáætlunar

        Lögð fram bókun samráðsnefndar Vestubyggðar og Tálknafjarðahrepps af 63. fundi nefndarinnar 2. febrúar 2022. Í bókuninni koma fram áherslur sveitarfélaganna í samgöngumálum á sunnanverðum Vestfjörðum vegna endurskoðunar samgönguáætlunar.

        Til máls tóku: Forseti.

        Bæjarstjórn Vesturbyggðar tekur undir bókun samráðsnefndar og er sammála því að á sama tíma og Vestfirðir eru tilnefndir sem einn af eftirsóknarverðustu áfangastöðum heimsins sumarið 2022, þá eru samgönguinnviðir á sunnanverðum Vestfjörðum ónýtir og að helstu náttúruperlum Vestfjarða, eins og Látrabjargi og Rauðasandi, liggja úr sér gengnir malarvegir. Bæjarstjórn leggur áherslu á að við endurskoðun samgönguáætlunar verði samgönguinnviðir á sunnanverðum Vestfjörðum bættir en svæðið hefur setið á hakanum um áratugaskeið þegar kemur að vegaframkvæmdum.

        Þrátt fyrir að framlög til vegaframkvæmda á Vestfjörðum í heild sinni hafi aukist þá hafa sunnanverðir Vestfirðir setið eftir og með þeim miklu umsvifum sem nú hafa orðið í atvinnulífi á svæðinu og mikilli fjölgun íbúa eru margir vegkaflar á svæðinu óboðlegir allt árið um kring, m.a. vegna viðhaldsskorts og skorti á framlögum til vetrarþjónustu. Sem dæmi um þá alvarlegu stöðu sem nú er á samgönguinnviðum á sunnanverðum Vestfjörðum þá er vegurinn um Mikladal ónýtur, vegurinn siginn og vegaxlir illa farnar. Þá hafa síðustu 3 mánuði orðið fjórar bílvelltur á veginum um Mikladal, en vegakaflinn er einn fjölfarnasti vegur á Vestfjörðum. Mikilvægt er því að tryggja viðunandi framlög til viðhalds og þjónustu ásamt því að framlag verði veitt til að hefja án tafar rannsóknir og undirbúning vegna jarðgangagerðar undir Mikladal og Hálfdán.

        Einnig verði í samgönguáætlun mælt fyrir um verulega aukin framlög til Vegagerðarinnar til að sinna nauðsynlegri vetrarþjónustu og lengja þjónustutíma til að bregðast við aukinn umferð m.a. þungaflutninga sem og að tryggja vetrarþjónustua á þeim leiðum sem framkvæmdir standa nú yfir á, s.s. á Dynjandisheiði. Þá verði gert ráð fyrir framlagi til endurnýjunar ferjunnar Baldurs sem siglir um Breiðafjörð og þar með tryggt öryggi farþega sem og greiðar samgöngur frá og til sunnanverðra Vestfjarða allt árið um kring.

        Þá verði framkvæmdum m.a. við Bíldudalsveg af Dynjandisheiði og ofan í Arnarfjörð flýtt og þar tryggð vetrarþjónusta. Einnig verði veitt framlag í að bæta vegkafla frá Bíldudalsflugvelli og að þorpinu á Bíldudal, en vegurinn er ónýtur, vegaxlir illa farnar og vegurinn einbreiður. Þá verði áfram hugað að viðhaldi Bíldudalsflugvallar og veitt framlag til að bæta aðflug m.a. í myrkri vegna sjúkraflugs.

        Bæjarstjórn leggur einnig áherslu á að tryggð verði framlög í hafnarbótasjóð til að standa undir nauðsynlegum framkvæmdum við hafnarmannvirki sveitarfélaganna, m.a. til að bregðast við aukinni atvinnustarfsemi í höfnum sveitarfélaganna tveggja sem tilkomin eru vegna aukinna umsvifa í fiskeldi og tengdum atvinnugreinum.

          Málsnúmer 2202005 4

          Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


          5. Jarðgangaáætlun Vestfjarða

          Lögð fram Jarðgangaáætlun fyrir Vestfirði og Jarðgöng á Vestfjörðum - samfélagsleg greining. Skýrslurnar voru kynntar á opnum fundi á vegum Vestfjarðastofu 27. janúar 2022 þar sem innviðaráðherra voru afhentar skýrslurnar með formlegum hætti.

          Til máls tóku: Forseti, ÁS.

          Bæjarstjórn fagnar því að fram sé komin jarðgangaáætlun Vestfjarða og að mikilvæg samstaða hafi náðst um forgangsröðun jarðgangakosta innan Vestfjarða, þar sem göng undir Mikladal og Hálfdán ásamt Súðavíkurgöngum eru í forgangi. Kallað hefur verið eftir samstöðu Vestfirðinga um forgangsröðun jarðgangaverkefna og nú þegar sú samstaða hefur náðst er mikilvægt að þingmenn kjördæmisins styðji við þá samstöðu og aðstoði við að tryggja þessum mikilvægu samgöngubótum á Vestfjörðum framgöngu.

            Málsnúmer 2101046 3

            Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


            6. Ósk um óformlegar viðræðum um sameiningu sveitarfélaga

            Lagt frm bréf Tálknafjarðarhrepps dags. 10. febrúar 2022 vegna erindis Vesturbyggðar dags. 20. desember 2021 þar sem bæjarstjórn óskaði eftir viðræðum við sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps um sameiningarvilja sveitarfélaganna tveggja. Í bréfinu kemur fram að erindi Vesturbyggðar hafi verið vísað til umfjöllunar hjá nýrri sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps sem tekur við eftir kosningar í vor.

            Til máls tóku: Forseti.

            Bæjarstjórn harmar það að sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps hafi vísað málinu áfram til komandi sveitarstjórnar, í stað þess að hefja samtal um sameiningu sveitarfélaganna með öllum þeim miklu tækifærum sem kunna að felast í sameiningu, þá sérstaklega þar sem þegar er mikið og gott samstarf á milli sveitarfélaganna tveggja.

              Málsnúmer 2111059 7

              Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


              7. Hjúkrunarrými á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða Patreksfirði

              Bæjarstjóri fór yfir framvindu málsins frá síðasta fundi bæjarstjórnar.

              Til máls tóku: Forseti, bæjarstjóri.

              Í máli bæjarstjóra kom fram að í samræmi við niðurstöður frumathugunar og með vísan til 66. gr. sveitarstjórnarlaga hefur verið óskað eftir mati á áhrifum framkvæmdarinnar á fjárhag sveitarfélagsins. Þá hefur verið aflað frekari gagna og upplýsinga frá Framkvæmdasýslunni - Ríkiseignir um sambærileg samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga ásamt því að afla frekari upplýsinga frá sveitarfélögum sem farið hafa í sambærileg verkefni. Þegar öflun gagna er lokið mun stýrihópur sem bæjarstjórn skipaði á síðasta fundi sínum móta tillögu er varðar viðbótarrými sveitarfélagsins.

                Málsnúmer 2004011 16

                Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


                8. Húsnæðissjálfseigarstofnun á landsbyggðinni

                Lagðir fram tölvupóstar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dags. 31. janúar 2022 og 14. febrúar 2022 þar sem í samstarfi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er boðað til stofnfundar húsnæðissjálfseignarstofnunar (hses) sem þjóni sveitarfélögum á landsbyggðinni. Þá er í erindinu vísað til umræðufunds um stofnun húsnæðissjálfseignarstofnunar sem fór fram 27. janúar 2022 en þar var farið yfir helstu forsendur aukins samstarfs sveitarfélaga til að stuðla að uppbyggingu og framboði á almennum íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins. Þá er gert ráð fyrir því að öll sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins geti lagt íbúðir inn í félagið eða tekið þátt í uppbyggingu. Markmiðið er að ná fram stærðarhagkvæmni sem næst ekki með litlum hses. félögum sem eiga aðeins fáar íbúðir. Þegar hafa 21 sveitarfélag lýst áhuga á að taka þátt í stofnun hses og gert er ráð fyrir að í félagið renni alls 70 íbúðir. Stofnfundurinn mun fara fram 23. febrúar 2022.

                Til máls tóku: Forseti.

                Bæjarstjórn samþykkir að sveitarfélagið Vesturbyggð verði stofnaðili að fyrirhugaðri húsnæðissjálfseignarstofnun og leggja fram 100.000 kr. stofnfé. Bæjarstjóra falið að taka, fyrir hönd sveitarfélagsins, þátt í stofnfundi húsnæðissjálfseignarstofnunar og undirrita stofnskjöl fyrir hönd sveitarfélagsins.

                  Málsnúmer 2110001 5

                  Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


                  9. Strandveiðar 2022 - Skerðing á strandveiðikvóta um 1.500 tonn.

                  Lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (strandveiðar) ásamt tölvupósti frá Gísla Einari Sverrissyni dags. 28. janúar 2022 þar sem leitast er eftir stuðningi Vesturbyggðar við frumvarpið. Í frumvarpinu er lagt til að heimildir sem dregnar eru frá leyfilegum heildarafla hverrar tegundar verði aðskildar. Frádráttur á úthlutuðu aflamarki til uppsjávarskipa verði 10,3% í stað 5,3% eins og verið hefur. Þetta er gert til að tryggja enn frekar aðgerðir til eflingar sjávarbyggða, þ.m.t. línuívilnun og strandveiðar og útgerð dagróðrabáta. Þá er frumvarpinu ætlað að tryggja strandveiðar í 48 veiðidaga frá og með árinu 2022 með auknum sveigjanleika í viðmiðunarafla til strandveiða. Er þeirri aðgerð ætlað að efla sjávarbyggðir um land allt, auka framboð á fiski frá dagróðrabátum og vinna gegn atvinnuleysi.

                  Til máls tóku: Forseti.

                  Bæjarstjórn tekur undir bókanir hafna- og atvinnumálaráðs á 36. fundi ráðsins og bæjarráðs á 935. fundi ráðsins og ítrekar áskorun á matvælaráðherra að endurskoða skerðingu aflaheimilda til strandveiða og að tryggja 48 daga til strandveiða ár hvert. Bæjarstjórn telur því mikilvægt að frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða er varðar strandveiðar fái umfjöllun og þinglega meðferð hjá Alþingi.

                    Málsnúmer 2201026 3

                    Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


                    10. Brjánslækjarhöfn - deiliskipulag

                    Lögð fram tillaga að deiliskipulagi Brjánslækjarhafnar, uppdráttur og greinargerð dagsett í janúar 2022. Tilgangur deiliskipulagsins er að búa til skipulagsramma utan um athafnasvæði hafnarinnar og þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er á næstunni. Skipulags- og umhverfisráð lagði til á 92. fundi sínum að í 3. mgr 5. kafla á bls. 13 í greinagerð og skilmálar þar sem fjallað er um einbýlishús verði texta skipt út fyrir eftirfarandi: Sunnan við hjallinn er lítið einbýlishús sem er víkjandi á svæðinu. Á uppdrætti verði hús merkt sem víkjandi. Þá lagði skipulags- og umhverfisráð til á sama fundi að tillagan yrði samþykkt. Hafna- og atvinnumálaráð lagði til á 37. fundi sínum að afstaða flotbryggju verði snúið um 90° í takt við óskir smábátasjómanna á Brjánslæk. Þá leggur ráðið til að við svæði þar sem núverandi trébryggja stendur og út að nýjum grjótgarði verði trébryggja á skipulaginu. Þá lagði hafna- og atvinnumálaráð til á sama fundi að tillagan yrði samþykkt.

                    Til máls tóku: Forseti.

                    Bæjarstjórn samþykkir tillöguna að teknu tilliti til þeirra breytinga sem skipulags- og umhverfisráð og hafna- og atvinnumálaráð hefur lagt til og felur skipulagsfulltrúa að auglýsa tillöguna skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

                      Málsnúmer 2111029 9

                      Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


                      11. Hjallar 22. Umsókn um lóð.

                      Lagt fram erindi frá Eydísi Þórsdóttur og Halldóri Traustasyni, dags 24. janúar 2022. Í erindinu er sótt um byggingarlóðina að Hjöllum 22 til byggingar einbýlishúss. Skipulags- og umhverfisráð lagði til á 92. fundi sínum að úthlutunin verði samþykkt og að grenndarkynna þurfi byggingaráformin áður en til framkvæmda kemur.

                      Til máls tóku: Forseti.

                      Bæjarstjórn samþykkir úthlutun lóðar að Hjöllum 22 á Patreksfirði.

                        Málsnúmer 2201047 2

                        Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


                        12. Umsókn um borun vinnsluholu - heitt vatn.

                        Lagt fram erindi frá Orkubúi Vestfjarða ohf, dags. 2. febrúar 2022. Í erindinu er sótt um heimild til dýpkunar á tveimur borholum undir Geirseyrarmúla Patreksfirði sem og borun á tveimur nýjum holum. Markmið borananna er að kanna hvort nægjanlega heitt og mikið vatn finnist til að keyra fjarvarmaveituna á staðnum með varmadælu, en rafketill veitunnar er að mestu keyrður á skerðanlegri orku. Rafmagnsverð skerðanlegrar orku hefur farið hækkandi og hlutfallslega meira en verð á forgangsorku. Verðmunurinn á milli skerðanlegrar orku og forgangsorku að óbreyttu dugar vart lengur til í hefðbundnu árferði að reka R/O veitur orkubúsins án taprekstrar. Skipulags- og umhverfisráð tók erindið fyrir á 92. fundi sínum og leggur til við bæjarstjórn að veitt verði framkvæmdaleyfi skv. 13. gr skipulagslaga og í samræmi við 8. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og 44. gr. skipulagslaga verði ofangreind umsókn um framkvæmdaleyfi grenndarkynnt.

                        Til máls tóku: Forseti.

                        Bæjarstjórn staðfestir tillögu skipulags- og umhverfisráðs og felur skipulagsfulltrúa að veita framkvæmdaleyfi sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að umsóknin verði grenndarkynnt skv. 8. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi og 44. gr. skipulagslaga. Ábendingum og athugasemdum við framlagða tillögu skal skila skriflega til Vesturbyggðar, Aðalstræti 75, 450 Patreksfjörður eða með tölvupósti á vesturbyggd@vesturbyggd.is fyrir 7. mars 2022. Eru þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér tillöguna.

                          Málsnúmer 2202008 2

                          Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


                          13. Kollsvík, sjóvörn. Umsókn um framkvæmdaleyfi.

                          Lagt fram erindi frá Kjartani Elíassyni f.h. Vegagerðarinnar dags. 18. janúar 2022. Í erindinu er sótt um framkvæmdaleyfi fyrir 80m sjóvörn í Kollsvík framan við fornminjar í landi Láganúps. Um er að ræða áframhald á verki sem kláraðist ekki árið 2020. Verkefnið er unnið í samráði við Vesturbyggð, Minjastofnun og landeigendur. Umsókninni fylgja yfirlits-, grunnmynd og snið ásamt leyfi landeiganda. Skipulags- og umhverfisráð tók erindið fyrir á 92. fundi ráðsins og lagði til að framkvæmdaleyfið yrði veitt.

                          Til máls tóku: Forseti.

                          Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að skipulagsfulltrúa verði heimilt að veita framkvæmdaleyfi fyrir sjóvörn skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

                            Málsnúmer 2201031 2

                            Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


                            Fundargerð

                            14. Velferðarráð - 39

                            Lögð fram til kynningar fundargerð 39. fundar velferðarráðs, fundurinn var haldinn 19. janúar 2022. Fundargerðin er í 3 liðum.

                            Málsnúmer 2201003F

                            Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


                            15. Almannavarnarnefnd - 5

                            Lögð fram til kynningar fundargerð 5. fundar almannavarnarnefndar, fundurinn var haldinn 3. febrúar 2022. Fundargerðin er í 4 liðum.

                            Málsnúmer 2201006F

                            Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


                            16. Bæjarráð - 935


                            17. Bæjarráð - 936


                            18. Samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps - 63

                            Lögð fram til kynningar fundargerð 63. fundar samráðsnefndar Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps, fundurinn var haldinn 2. febrúar 2022. Fundargerðin er í 6 liðum.

                            Málsnúmer 2202001F

                            Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


                            19. Skipulags og umhverfisráð - 92

                            Lögð fram til kynningar fundargerð 92. fundar skipulags- og umhverfisráðs, fundurinn var haldinn 10. febrúar 2022. Fundargerðin er í 7 liðum.

                            Málsnúmer 2202004F

                            Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


                            20. Hafna- og atvinnumálaráð - 37


                            Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:59