Hoppa yfir valmynd

Bæjarstjórn #380

Fundur haldinn í Brellum, fundarsal í ráðhúsi Vesturbyggðar, 15. febrúar 2023 og hófst hann kl. 17:00

Nefndarmenn
  • Maggý Hjördís Keransdóttir (MHK) varamaður
  • Ásgeir Sveinsson (ÁS) aðalmaður
  • Friðbjörn Steinar Ottósson (FSO) aðalmaður
  • Guðrún Eggertsdóttir (GE) aðalmaður
  • Jón Árnason (JÁ) aðalmaður
  • Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir (SSS) aðalmaður
  • Þórkatla Soffía Ólafsdóttir (ÞSÓ) aðalmaður
Starfsmenn
  • Gerður Björk Sveinsdóttir (GBS) sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
  • Þórdís Sif Sigurðardóttir (ÞSS) bæjarstjóri

Fundargerð ritaði
  • Gerður Björk Sveinsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs

Bæjarstjórn Vesturbyggðar kom saman til 380. fundar miðvikudaginn 15. febrúar 2023 kl. 17:00 í Ráðhúsi Vesturbyggðar, Aðalstræti 75, Patreksfirði.
Jón Árnason forseti setti fundinn og kannaði hvort athugasemdir væru við fundarboðun. Svo var ekki.
Anna Vilborg Rúnarsdóttir boðaði forföll, í hennar stað situr fundinn Maggý Hjördís Keransdóttir.

Almenn erindi

1. Skýrsla bæjarstjóra

Bæjarstjóri Vesturbyggðar fór yfir helstu verkefni síðustu vikna.

Til máls tóku: Forseti og bæjarstjóri.

Málsnúmer16

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


2. Upplýsingaöryggistefna Vesturbyggðar - Uppfærð

Lögð fram uppfærð upplýsingaöryggisstefna Vesturbyggðar í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.

Til máls tók: Forseti.

Bæjarstjórn staðfestir stefnuna samhljóða.

Málsnúmer

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


3. Starfshópur um samstarfs í velferðarþjónustu meðal sveitarfélaga á Vestfjörðum

Á 67. Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið var 8.-10. september sl. var ákveðið að skipa starfshóp um aukið samstarf í velferðarþjónustu á Vestfjörðum vegna breytinga á lagaumhverfi í barnaverndarmálum og eru tillögur starfshópsins nú lagðar fyrir sveitarstjórnir á Vestfjörðum.

Til máls tóku: Forseti og SSS

Bæjarstjórn Vesturbyggðar tekur vel í tillögu um að samningur verði gerður við Ísafjarðarbæ um að vera leiðandi sveitarfélag vegna barnaverndarþjónustu og þjónustu við fatlað fólk. Bæjarstjórn telur að breytingin á starfseminni geti bætt þjónustu við íbúa og nýtt mannauð og fagþekkingu starfsfólks sveitarfélaganna betur. Bæjarstjórn leggur áherslu á að um mikilvæga þjónustu er að ræða í starfi sveitarfélaga og varðar íbúa sveitarfélagsins beint. Leiðandi sveitarfélag verður að geta þjónað íbúum vel á hagkvæman og skilvirkan hátt innan ramma laganna. Bæjarstjórn leggur áherslu á að verklag, verkferlar og umsýsla í tengslum við málaflokkana sé eins skýr og auðið er við upphaf þjónustunnar, sem og aðkoma aðildar sveitarfélaganna. Enn fremur telur bæjarstjórn mikilvægt að samningurinn milli sveitarfélaganna verði endurskoðaður innan árs frá gildistöku hans og að aðkoma allra aðildar sveitarfélaga verði tryggð að þeirri vinnu.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkir að fara í samstarf í formi leiðandi sveitarfélags um sérhæfða velferðarþjónustu á Vestfjörðum þar sem Ísafjarðarbær mun taka að sér að vera leiðandi sveitarfélag. Með sérhæfðri velferðarþjónustu er átt við framkvæmd og rekstur barnaverndarþjónustu sbr. barnaverndarlög nr. 80/2002 og þjónustu við fatlað fólk skv. lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.

Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarstjóra að útfæra nánar fyrirliggjandi drög að samningi um samstarf sveitarfélaganna í samráði við sveitarstjóra annarra sveitarfélaga sem einnig hafa samþykkt umrætt samstarf. Bæjarstjóra er einnig falið að undirrita samninginn að lokinni þeirri vinnu og leggja fyrir bæjarstjórn til staðfestingar.

Samþykkt samhljóða

Málinu er vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Málsnúmer11

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


4. Eyrargata 5. Ósk um breytingu á deiliskipulagi hafnarsvæðis

Maggý Hjördís Keransdóttir óskaði eftir því að fá að víkja af fundi undir þessum lið. Það var samþykkt samhljóða og vék Maggý af fundi.

Tekin fyrir eftir auglýsingu óveruleg breyting á deiliskipulagi hafnar- og þjónustusvæðis á Patreksfirði. Breytingin fjallar um stækkun á byggingarreit á lóð Eyrargötu 5. Breytingin var grenndarkynnt með athugasemdafrest til 23. janúar 2023 en engar athugasemdir bárust á kynningartímanum.

Skipulags- og umhverfisráð samþykkti fyrir sitt leyti að tillagan fái málsmeðferð í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og beindi málinu til hafna- og atvinnumálaráðs og bæjarstjórnar.

Til máls tóku: Forseti og bæjarstjóri

Bæjarstjórn Vesturbyggðar tekur undir bókun skipulags- og umhverfisráðs og samþykkir að tillagan fái málsmeðferð í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Maggý Hjördís Keransdóttir kom aftur inná fundinn.

Málsnúmer6

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


5. Aðalstræti 19 - umsókn um lóð

Erindi frá Mikladal ehf, dags. 1. febrúar 2023. Í erindinu er sótt um byggingarlóðina að Aðalstræti 19, Patreksfirði. Sótt er um lóðina til byggingar fjölbýlishúss, allt að þremur íbúðum skv. deiliskipulagi.

Lóðin er skv. deiliskipulagi 556m2 fyrir allt að 3 íbúðir.

Skipulags- og umhverfisráð lagði til við bæjarstjórn að úthlutunin verði samþykkt.

Til máls tók: Forseti

Bæjarstjórn samþykkir úthlutun lóðarinnar samhljóða.

Málsnúmer2

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


6. Strandgata 14B - Umsókn um lóð

Erindi frá Vesturbyggð dags 30. janúar 2023. Í erindinu er sótt um byggingarlóðina að Strandgötu 14B, Bíldudal. Áformað er að byggja 300m2 iðnaðarhús á lóðinni sem hýsa á slökkvistöð og áhaldahús á Bíldudal. Lóðin er 798m2 og er skipulögð sem iðnaðarsvæði.

Skipulags- og umhverfisráð lagði til við bæjarstjórn að úthlutunin verði samþykkt.

Til máls tók: Forseti

Bæjarstjórn samþykkir úthlutun lóðarinnar

Málsnúmer2

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


7. Formlegar sameiningaviðræður milli Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar

Á fundi verkefnastjórnar um óformlegar sameiningaviðræðnur Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar sem haldinn var 1. febrúar sl. var samþykkt samhljóða að vísa tillögu um að hefja formlegar sameiningaviðræður milli Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar til sveitarstjórna sveitarfélaganna. Verði tillagan samþykkt er óskað eftir því að hvort sveitarfélag tilnefni þrjá sveitarstjórnarfulltrúa í samstarfsnefnd vegna sameiningar sveitarfélaganna.

Stefnt skuli að því að samstarfsnefndin skili áliti sínu til sveitarstjórna í maí næstkomandi með það fyrir augum að formleg kynning tillögunnar hefjist í ágúst og að kjördagur verði fyrir lok árs 2023. Samstarfsnefndinni er falið að setja verkefninu nánari verkáætlun og tímaramma.

Tillagan er lögð fram í kjölfar óformlegra viðræðna fulltrúa sveitarfélaganna og samráðs við innviðaráðuneytið og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Bæjarráð Vesturbyggðar tók málið fyrir á 956. fundi sínum þar sem lagt var til við bæjarstjórn að samþykkja að skipa sex fulltrúa í samstarfsnefnd, þ.e. þrír frá hvoru sveitarfélagi, sem kanna skal möguleika á sameiningu sveitarfélaganna í samræmi við 119. gr. sveitarstjórnarlaga.

Bæjarráð lagði til að bæjarstjórn skipi fulltrúa Vesturbyggðar til setu í samstarfsnefndinni.

Til máls tóku: Forseti, ÁS og ÞSÓ.

Bæjarstjórn samþykkir tillöguna og tilnefnir Þórkötlu Soffíu Ólafsdóttur, Jón Árnason og Guðrúnu Eggertsdóttur sem fulltrúa Vesturbyggðar í samstarfsnefndina.

Samþykkt samhljóða.

Málsnúmer9

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


8. Fjárhagsáætlun 2023 - viðaukar

Lagður fyrir viðauki 1 við fjárhagsáætlun 2023 ásamt minnisblaði bæjarstjóra og sviðsstjóra fjölskyldusviðs Vesturbyggðar. Viðaukinn er lagður fyrir vegna kostnaðar við aðstöðu fyrir dagforeldra á Patreksfirði áamt kostnaðar til að tryggja dagforeldri lágmarkstekjur óháð fjölda barna. Reglur um dagforeldra á Patreksfirði voru lagðar fyrir á 27. fundi fræðslu og æskulýðsráðs og er viðaukinn í samræmi við þær. Kostnaður við verkefnið eru áætlaðar að hámarki 3,9 milljónir og er lagt til að launakostnaður á Arakletti verði lækkaður á móti þar sem ekki þarf að ráða inn viðbótarstarfsfólk fyrr en seinna á árinu en áætlun gerði ráð fyrir að það yrði gert í upphafi árs.

Bæjarráð tók viðaukkann fyrir á 956. fundi sínum þar sem hann var samþykktur og vísað áfram til bæjarstjórnar til staðfestingar.

Til máls tók: Forseti

Bæjarstjórn samþykkir viðaukann samhljóða.

Málsnúmer10

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


9. Borgað þegar hent er í byrjun árs 2023 - meðhöndlun úrgangs

Lögð fyrir til annarar umræðu samþykkt Vesturbyggðar um meðhöndlun úrgangs.

Bæjarráð tók samþykktirnar fyrir á 956. fundi sínum þar sem lagt var til að gerðar verði breytingar á samþykktum Vesturbyggðar um meðhöndlun úrgangs milli umræðna í bæjarstjórn. Bæjarráð fól bæjarstjóra að leggja fyrir tillögur fyrir bæjarstjórn að breytingum á samþykktunum, til að auka möguleika íbúa til að lækka hjá sér kostnað vegna úrgangsmála. Breytingarnar fela í sér sérreglur fyrir fjölbýlishús þ.e íbúðarhúsnæði með tveimur íbúðum eða fleiri, um samnýtingu sorpíláta, breytingu á fjölda og stærð sorpíláta, sem og heimild til undanþágu á sorpíláti fyrir lífúrgang ef íbúi stundar sannanlega heimajarðgerð.

Til máls tóku: Forseti og bæjarstjóri.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Vesturbyggð samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 og 59. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 sbr. 1. tl. 1. mgr. 18. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Bæjarstjóra falið að undirrita samþykktina og ganga frá birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt samhljóða.

Málsnúmer5

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


10. Krapaflóð í Vesturbyggð 26. janúar 2023

Lögð er fram vettvangsskýrsla um krapaflóðin úr Geirseyrargili á Patreksfirði 26. janúar sl., sem gefin er út af Veðurstofu Íslands og rituð af Tómasi Jóhannessyni og Þresti Reynissyni. Auk krapaflóðsins á Patreksfirði, féllu tvö minni flóð í hlíðunum fyrir ofan Bíldudal, annað flóðið féll á ofanflóðavarnir sem gerðu sitt gagn, en hitt á stað þar sem ofanflóðavarnir eru áætlaðar. Enn fremur féll snjóflóð á Raknadalshlíðina sem lokaði veginum um hríð.

Bæjarráð tók skýrsluna fyrir á 955. fundi sínum þann 2. febrúar sl. þar sem eftirfarandi var bókað:

Bæjarráði Vesturbyggðar þykir mikil mildi að ekki hafi farið verr í flóðunum sem féllu í sveitarfélaginu fimmtudaginn 26. janúar sl. þar sem farvegur flóðanna var í gegnum þorpin og við aðkomuna inn á Patreksfjörð þar sem m.a skólabíll átti leið hjá fyrr um morguninn.

Bæjarráð skorar á stjórnvöld að auka fjárframlög til ofanflóðavarna, að allt sé gert til þess að draga úr ofanflóðahættu á byggðir og fjölfarna vegi innan sveitarfélagsins. Mikilvægt er, að hafnar verði framkvæmdir til að draga úr hættu ofanflóðanna fyrir íbúa þegar í stað. Bæjarráð óskar eftir fundi með Ofanflóðasjóði, ráðherra umhverfis-, orku- og loflagsráðherra, innviðaráðherra og forsætisráðherra.

Íbúafundur sem átti að eiga sér stað í dag á Patreksfirði var frestað vegna veðurs. Fundurinn verður boðaður að nýju um leið og veður leyfir. Bæjarráð telur mikilvægt að halda íbúum sveitarfélagsins upplýstum um ofanflóðahættu, ofanflóðavarnir og það viðbragð sem fer af stað þegar ofanflóðahætta myndast.

Bæjarráð Vesturbyggðar sendir bestu þakkir sínar til þeirra fjölmörgu viðbragðsaðila sem tóku þátt í að tryggja öryggi íbúa. Auk þess þakkar bæjarráð íbúum fyrir að fara eftir fyrirmælum almannavarna og halda ró sinni þó flóðin hafi valdið óöryggi hjá íbúum, þá sýndi það enn einu sinni hversu mikil samstaða og samhugur er í sveitarfélaginu.

Til máls tóku: Forseti, FSO, bæjarstjóri og ÁS.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar tekur heilshugar undir bókun bæjarráðs og skorar á stjórnvöld að auka fjárframlög til ofanflóðavarna, að allt sé gert til þess að draga úr ofanflóðahættu á byggðir og fjölfarna vegi innan sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða.

Málsnúmer4

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


11. Húsnæðisáætlun Vesturbyggðar 2023

Lögð fram Húsnæðisáælun Vesturbyggðar 2023. Húsnæðisáætlunin er hér lögð fram með sama sniðu og gert var árið 2022. Áætluninni er skilað rafrænt og á stöðluðu formi til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Markmið með þessu formi húsnæðisáætlana er að auðvelda sveitarfélögum gerð þeirra ásamt því að auðvelda samanburð á milli sveitarfélaga og þannig bæta yfirsýn um stöðu og horfur á húsnæðismarkaði.

Húsnæðisáætlun Vesturbyggðar 2023 var unnin með hliðsjón af stefnuskjölum bæjarstjórnar Vesturbyggðar s.s. áætlun um mannfjöldaþróun skv. fjárhagsáætlun 2023-2026. Bæjarstjóri ásamt sviðsstjórum Vesturbyggðar héldu utan um öflun upplýsinga í áætlunina í samstarfi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Bæjarráð vísaði húsnæðisáætluninni áfram til staðfestingar bæjarstjórnar.

Til máls tóku:Forseti, bæjarstjóri, GE og ÁS.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkir húsnæðisáætlun Vesturbyggðar fyrir árið 2023.

Málsnúmer2

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


Fundargerð

12.

Lögð fram til kynningar fundargerð 955. fundar bæjarráðs, fundurinn var haldinn 2. febrúar 2023. Fundargerðin er í 13 liðum.

Til máls tók: Forseti

Málsnúmer

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


13.

Lögð fram til kynningar fundargerð 956. fundar bæjarráðs, fundurinn var haldinn 7. febrúar 2023. Fundargerðin er í 12 liðum.

Til máls tók: Forseti

Málsnúmer

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


14.

Lögð fram til kynningar fundargerð 103. fundar skipulags og umhverfisráðs, fundurinn var haldinn 9. febrúar 2023. Fundargerðin er í 9 liðum.

Til máls tók: Forseti

Málsnúmer

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


15.

Lögð fram til kynningar fundargerð 84. fundar fræðslu- og æskulýðsráðs, fundurinn var haldinn 27. janúar 2023. Fundargerðin er í 1 lið.

Til máls tók: Forseti

Málsnúmer

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


16.

Lögð fram til kynningar fundargerð 85. fundar fræðslu- og æskulýðsráðs, fundurinn var haldinn 6. febrúar 2023. Fundargerðin er í 4 liðum.

Til máls tóku: Forseti og GE.

Málsnúmer

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


17.

Lögð fram til kynningar fundargerð 26. fundar menningar- og ferðamálaráðs, fundurinn var haldinn 6. febrúar 2023. Fundargerðin er í 6 liðum.

Til máls tók: Forseti

Málsnúmer

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


18.

Lögð fram til kynningar fundargerð 6. fundar ungmennaráðs, fundurinn var haldinn 19. janúar 2023. Fundargerðin er í 5 liðum.

Til máls tóku: Forseti og GE.

Málsnúmer

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


19.

Lögð fram til kynningar fundargerð 46. fundar hafna- og atvinnumálaráðs, fundurinn var haldinn 13. febrúar 2023. Fundargerðin er í 3 liðum.

Til máls tók: Forseti

Málsnúmer

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.


Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:10